Skoðun

Hreyfing barna og unglinga

Hermann Valsson skrifar
Hreyfing er öllum mikilvæg. Hreyfing eða hreyfingaleysi barna hefur verið talsvert í umræðunni á undanförnum árum. Nýlega var opnuð heimasíða www.lettariaeska.is þar sem höfundurinn Hrund Scheving tekur saman helstu upplýsingar og gefur ráð til foreldra. Gott og þarft framtak. Undirritaður kíkti á síðuna og leist vel á. Einhverir voru þó að gera athugasemdir við þyngdartöfluna en vert er að minna á að töflur sem þessar er meðaltal og það eru alltaf einhverjir sem falla utan þeirra. En hvað er verið að gera í Reykjavík. Leikskólar bjóða börnum uppá mikla hreyfingu í sinni dagskrá. Hreyfing er líka stór þáttur í dagskrá Frístundaheimila borgarinnar. Íþróttabandalag Reykjavíkur hefur síðastliðin ár boðið upp á, í samvinnu við borgaryfirvöld og íþróttafélögin, íþróttaskóla fyrir yngstu börn grunnskólans. Allt eru þetta góðar aðgerðir sem stuðla að hreyfingu barnanna.

Íþróttahreyfingin er líklega stærsti einstaki aðilinn sem býður uppá margháttaða hreyfingu fyrir börn og unglinga. Borgin hefur stutt vel við bakið á íþróttahreyfingunni undanfarinn ár. Borgin útvegar svæði og tekur bróðurpart af kostnaði við uppbyggingu íþróttamannvirkja auk þess sem hún styður við félögin hvað varðar laun íþróttafulltrúa félaganna. Nú bregður svo við að fjármagn til uppbyggingar mannvirkja er að skornum skammti og framkvæmdir við ný mannvirki munu að öllum líkindum tefjast. Hvað er til ráða? Það mætti hugsa sér að borgin veitti íþróttafélögunum stuðning til að ráða til sín aukinn mannafla. Þannig gætu félögin betur tekist á við erfiðar aðstæður og um leið sinnt börnum og unglingum betur. Það gæti meðal annars skapast grunvöllur fyrir því að setja í gang starf fyrir börn og unglinga sem ekki hafa haft áhuga á keppni og þannig fælst frá félögunum og nauðsynlegri hreyfingu. Framlag íþróttafélaganna til samfélagsins er mikið og gæti verið enn meira fái þau til þess nauðsynlegan stuðning.

Höfundur er varaborgarfulltrúi Vinstri grænna




Skoðun

Sjá meira


×