Erlent

Eldklerkur veldur uppþotum í Kasmír

Mótmæli í Kasmír.
Mótmæli í Kasmír. Mynd / AP

Talið er að eldklerkurinn Terry Jones hafi meðal annars valdið uppþoti í Kasmír í dag en minnsta kosti fjórtán eru látnir í átökunum og yfir 60 hafa særst.

Fjölmiðlar um allan heim fjölluðum um kirkjusókn Terrys sem hótaði að brenna kóraninn þann 11. september síðastliðinn.

Málið náði meðal annars athygli forseta Bandaríkjanna, Barack Obama, sem hvatti Terry til þess að láta af bókabrennunni vegna þess að hún gæti ógnað lífi bandarískra hermanna í Afganistan og Írak.

Svo virðist sem ætlun Terrys hafi haft alvarlegri afleiðingar en hann hélt, í það minnsta samkvæmt New York Times, sem greinir frá því að fréttir af fyrirhugaðari bókabrennu Terrys hafi verið kornið sem fyllti mælinn í Kasmír.

Íslamskir mótmælendur hafa mótmælt nánast daglega síðan í júní. Mótmælendur krefjast þess að Kasmír verði sjálfstætt ríki og að Indlandsher hverfi á brott úr héraðinu.

Þá vilja mótmælendur einnig að yfirmenn hersins njóti ekki friðhelgis eins og lög kveða á um í dag.

Indversk stjórnvöld hafa hvatt sjónvarpsstöðvar þar í landi til þess að sýna ekki fréttir af bókabrennunni en fæstar sjónvarpsstöðvarnar hafa orðið við beiðni stjórnvalda.

Mótmælendur eru sagðir hafa brennt kristilegan skóla í Kasmír í hefndarskyni. Þeir eru einnig sagðir hafa ráðist á kirkjur og lögreglumenn.

Þá hafa mótmælendur kastað grjóti í indverska hermenn sem hafa svarað með því að skjóta á mótmælendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×