Erlent

Bretum gert að skera enn meira niður

Liam byrne og Gordon Brown Niðurskurðaráform þeirra fullnægja ekki kröfum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.nordicphOTOS/AFP
Liam byrne og Gordon Brown Niðurskurðaráform þeirra fullnægja ekki kröfum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.nordicphOTOS/AFP

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins segir að Bretar verði að standa sig betur við niðurskurð fjárlaga, eigi þeim að takast að ná nauðsynlegum tökum á fjárlagahallanum.

Liam Byrne, ráðuneytisstjóri breska fjármálaráðuneytisins, ber sig aumlega í viðtali við breska ríkisútvarpið og segir að það myndi valda „óbætanlegum skaða“ á efnahagslífi landsins ef farið verður að tilmælum Evrópusambandsins.

Búist er við því að fjárlagahalli breska ríkisins verði kominn upp í 12,6 prósent af landsframleiðslu, eða 178 milljarða punda. Niðurskurðarhugmyndir bresku stjórnarinnar miða að því að ná honum niður í 4,7 prósent árið 2015.

Samkvæmt reglum Evrópusambandsins má fjárlagahalli hins vegar ekki vera meiri en þrjú prósent af landsframleiðslu. Bretar fengu á síðasta ári frest til ársins 2015 til að ná þessu fram.

Grikkir gátu hins vegar andað léttar í bili í gær þegar þrýstingur minnkaði á fjármálamörkuðum, daginn eftir að Evrópusambandið hafði lofað að koma Grikkjum til hjálpar síðar meir ef í ljós kæmi að þeir réðu ekki við skuldavanda ríkisins.

Miklu munar þar að matsfyrirtækið Standard & Poor‘s ákvað að taka Grikkland af athugunarlista sínum, sem þýðir að lánshæfismat landsins verður ekki lækkað í bráð.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×