Viðskipti innlent

Tryggingafélögin endurnýta tjónabúnað

Græn framtíð hefur hafið samstarf við tryggingafélögin Sjóvá, VÍS, Tryggingamiðstöðina og Vörð um endurnýtingu á smáraftækjum sem berast vegna tjónamála. Græn framtíð mun annast flutning á tjónabúnaði fyrir hönd tryggingafélaganna til vottaðra endurvinnslufyrirtækja erlendis sem tryggja endurnýtingu á þeim með ábyrgum hætti.

Í tilkynningu segir að tryggingafélögin fá í hendur ýmis tjónatæki frá viðskiptavinum sem í flestum tilvikum eru ekki hæf til notkunar. Hins vegar er hægt að nýta virka íhluti úr þeim fyrir framleiðslu á öðrum raftækjum. Þá er hægt að eyða spilliefnum með löglegum hætti. Meðal þess búnaðar sem verður sendur í endurnýtingu eru GSM símar, fartölvur og MP3 spilarar.

Markmiðið með samstarfinu er að efla umhverfisvitund og stuðla að almennri endurnýtingu og endurvinnslu á raftækjum hér á landi. Þá vilja félögin fylgja eftir WEEE tilskipun Evrópusambandsins (Waste Electrical and Electronic Equipment) um rétta meðhöndlun á rafeindaúrgangi og tryggja umhverfisvæna starfshætti.

Græn framtíð er félag sem sérhæfir sig í endurnýtingu og endurvinnslu á hvers kyns raftækjum frá fyrirtækjum og einstaklingum, með það að markmiði að draga úr því magni rafeindabúnaðar sem endar á sorphaugum, auk þess að stuðla að aukinni vitund um endurnýtingu og endurvinnslu á þeim búnaði sem um ræðir hverju sinni, að því er segir í tilkynningunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×