Skoðun

Er betra heima setið en af stað farið?

Kjartan Broddi Bragason skrifar
Heitar umræður eru í samfélaginu um almenna niðurfærslu skulda heimilanna. Þeir sem því eru hlynntir segja að forsendubrestur við fall fjármálakerfisins hafi valdið því að endurskoða þurfi til lækkunar stökkbreyttan höfuðstól lána. Hver hagfræðingurinn á fætur öðrum varar við slíkri aðgerð.

Meginröksemd þeirra aðila er að ekki sé forsvaranlegt að gera þetta með almennum hætti þar sem fjöldi skuldugra heimila sem ekki hefur þörf á slíkri lækkun fái þá happdrættisvinning. Þá sé verið að umbuna þeim sem síst skyldi og sem hagað hafa fjármálum sínum með ógætilegum hætti.

Ég hef skrifað dálítið um þessi mál á umliðnum tveimur árum og kynnt mér þau þokkalega. Á einhverjum tímapunkti lagði ég til að fara ætti í almenna niðurfærslu að einhverju marki og láta síðan fjármálastofnanir taka á þeim vandamálum sem krefjast sértækra aðgerða. Sú skoðun mín hefur ekki breyst.

Í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við er stærsti hluti lána óverðtryggður. Við óvænt verðbólguskot gerist það að raunvextir á útistandandi lánum lækka. Raunvaxtatala útlánsins verður ekki ljós fyrr en í lok lánstímans og fjármagnseigendur og skuldarar standa báðir frammi fyrir ákveðinni áhættu – þeirri óvissu sem komandi verðlag hefur á raunvexti lánsins og sem fyrst verða ljósir í lok lánstímans. Það er þetta sanngirnissjónarmið sem verið er að kalla eftir að fjármagnseigendur taki tillit til vegna mikillar hækkunar á vísitölu neysluverðs á umliðnum 2-3 árum. Er það svo ósanngjörn krafa? Fjármagnseigendur í öðrum löndum hefðu þurft að bera þessar byrðar með skuldurum – en vegna okkar sérstöku verðtryggingar lenda allar búsifjarnar á lántakendum. Er það ekki ósanngjarnt?

Þá er alveg ljóst í mínum huga að þessar afskriftir munu koma fram – það er bara spurning með hvaða hætti það verður og á hve löngum tíma. Núna gefst okkur tækifæri til að kortleggja vandamálið og í framhaldinu (vonandi) stýra þeirri þróun sem óhjákvæmilega er í kortunum.

En hvað er óhjákvæmilegt? Miklar líkur eru á að heimili landsins munu ekki standa undir heildarskuldum heimilanna eins og þær birtast okkur í opinberum tölum. Það þarf ekkert að kunna mjög mikið í reikningi til að komast að þeirri niðurstöðu. Eins og fram kemur í gögnum Seðlabankans eru tekjulægri heimili að bera allt of stóra byrði af heildarskuldum heimilanna og það eru engin teikn á lofti um að ráðstöfunartekjur þeirra séu að vaxa það hratt að þetta vandamál leysist af sjálfu sér – eins skemmtilegt og það myndi vera.

Athafnaleysi mun að mínu áliti kosta samfélag okkar meira til lengri tíma litið en ef við sammælumst um að taka „völdin“ í okkar hendur – gefa þessi spil upp á nýtt að einhverju marki og setja sterkari fjárhagslegan grunn undir heimili landsins. Það mun skila samfélaginu – og líka fjármagnseigendum, fyrirtækjaeigendum og lífeyrissjóðum – langtum meiri ávinningi en að láta allt reka á reiðanum og sitja með hendur í skauti og þora ekki að taka á því óhjákvæmilega.



Skoðun

Sjá meira


×