Innlent

Ísland vill óbreytta hlutdeild

Tómas H. Heiðar
Tómas H. Heiðar

Íslensk stjórnvöld hafa það sem útgangspunkt í makríl­viðræðunum við Norðmenn, Evrópusambandið og Færeyinga, að hlutdeild Íslands í veiðunum framvegis verði sú sama og í sumar, eða sautján prósent af veiðistofni.

„Við höfum hins vegar lýst okkur reiðubúin til að fallast á nokkra lækkun þessarar hlutdeildar gegn aðgangi að lögsögu ESB og Noregs, sé það talið til þess fallið að greiða fyrir lausn málsins“, segir Tómas H. Heiðar, formaður samninganefndar Íslands.

Viðræðum strandríkjanna lauk í London á fimmtudag án árangurs. Á fundinum settu Norðmenn fram tilboð um að framtíðarhlutdeild Íslands í makrílkvótanum verði 3,1 prósent. Séu veiðarnar í sumar hafðar til hliðsjónar þýðir það að afli Íslendinga færi úr um 130 þúsund tonnum niður í 27 þúsund tonn. Verðmæti makríl­afurða sumarsins er metið á fimmtán milljarða króna.

Tómas H. Heiðar sagði í viðtali við Fréttablaðið í gær að svo virtist sem Norðmenn og ESB teldu sig í raun eiga makrílstofninn, þrátt fyrir að rannsóknir Hafrannsóknastofnunar sýni að milljón tonn af makríl hafi gengið inn í íslensku lögsögunna í sumar. Í því ljósi sé tilboðið ósanngjarnt og í raun fáránlegt.

Makrílviðræðunum verður fram haldið í London dagana 8.-12. nóvember næstkomandi. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×