Handbolti

Króatar í úrslitaleikinn - mætum Pólverjum í bronsleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ivano Balic lék vel Króatíu í dag.
Ivano Balic lék vel Króatíu í dag. Mynd/AFP
Króatar mæta Frökkum í úrslitaleiknum á EM í handbolta eftir þriggja marka sigur á Pólverjum, 24-21 í seinni undanúrslitaleik dagsins. Íslenska landsliðið mætir því pólska í leiknum um þriðja sætið á morgun.

Pólverjar voru með frumkvæðið allan fyrri hálfleik, komist í 5-3, 8-6 og 10-8 og voru einu marki yfir íleikhléi, 10-9.

Króatar skoruðu síðasta mark fyrri hálfleiks og svo gerði Domagoj Duvnjak þrjú fyrstu mörk seinni hálfleiks og kom Króatíu 12-10 yfir. Króatar voru síðan komnir með þriggja marka forskot, 15-12, þegar tíu mínútur voru liðnar af hálfleiknum.

Pólverjar náðu að minnka muninn niður í eitt mark, 17-16, um miðjan hálfleikinn en komust ekki lengra, Króatar náði aftur góðu forskoti og voru með fjögurra marka forskot á lokasprettinum.

Pólverjar náðu reyndar að minnka muninn í tvö mörk þegar mínúta var eftir en Drago Vukovic innsiglaði sigurinn 34 sekúndum fyrir leikslok.

Ivan Cupic var markahæstur hjá Króatíu með sex mörk en þeir Ivano Balic og Domagoj Duvnjak skoruðu báðir fimm mörk fyrir Króatíu. Michal Jurecki var með sjö í liði Pólverja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×