Skoðun

Nýfrjálshyggja?

Jóhann Páll Jóhannsson skrifar

Nýverið var gefin út bók á vegum Háskóla Íslands sem ber heitið Eilífðarvélin - uppgjör við nýfrjálshyggjuna. Í kjölfarið hafa sprottið upp umræður um merkingu orðsins nýfrjálshyggja. Hægrimenn hafa fussað og sveiað yfir því að nokkur taki sér orðið í munn og sumir jafnvel látið í veðri vaka að hugtakið sé eins konar skammaryrði, fundið upp til að ata málsvara frelsisins skít. Í nýútkominni greinagerð Sambands ungra sjálfstæðismanna er að finna þessi orð: ,,Vart þarf að taka fram að allt tal um nýfrjálshyggju er marklaust enda ekkert til sem heitir nýfrjálshyggja." Fullyrðingar þessar hljóta að koma ýmsum spánskt fyrir sjónir þar sem nýfrjálshyggjuhugtakið er býsna útbreitt. Skrifaðar hafa verið ótal bækur um nýfrjálshyggju eða neoliberalism á ýmsum tungumálum, stjórnmálamenn tönnlast á orðinu auk þess sem hagfræðingum á borð við nóbelsverðlaunahafana Joseph Stiglitz og Paul Krugman er tíðrætt um stefnuna. Hér á eftir verður útskýrt hvers vegna þörf er á hugtakinu.

Adam Smith, John Stuart Mill og John Locke eru meðal þeirra sem lögðu grunninn að hinni klassísku frjálshyggju. Þeir voru mótfallnir hvers kyns kúgun og yfirgangi, hömpuðu markaðsbúskap og boðuðu frelsi einstaklingins til orða og athafna svo fremi sem gjörðir hans sköðuðu ekki aðra. Hafa ber í huga að klassísku frjálshyggjumennirnir lifðu flestir á tímum öflugs konungsvalds og því skyldi engan undra að þeir hafi verið býsna tortryggnir gagnvart ríkisvaldinu. Hins vegar gerði þorri þeirra sér grein fyrir því að markaðskerfið er ekki fullkomið; stundum þarf ríkið að grípa inn í til að tryggja að markaðurinn sé skilvirkur og samfélagsheildinni til hagsbóta. Til dæmis taldi Adam Smith tollvernd í mörgum tilvikum nauðsynlega. Hann vildi að bönkum væri sýnt aðhald og að ríkið sæi til að mynda um vegalagningu, brúargerð og menntun þegnanna. John Stuart Mill sat lengi á þingi og barðist fyrir því að sett yrðu lög sem bættu aðstæður verkafólks og tryggðu að auðlindir á Englandi væru sameign þjóðarinnar. Klassísku frjálshyggjumennirnir voru uppi fyrir tíð velferðarþjóðfélagsins og því er erfitt að segja til um hver afstaða þeirra til velferðarkerfis hefði verið. En ofangreind dæmi vekja óhjákvæmilega þá spurningu hvort þeir eigi kannski meira sameiginlegt með félagshyggjumönnum nútímans heldur en þeim sem heimta hömlulaust markaðskerfi.

Ef John Stuart Mill og Adam Smith heyrðu málflutning þeirra sem nú á dögum kenna sig hvað mest við frjálshyggju myndu þeir eflaust snúa sér við í gröfinni. Sá málflutningur er oft gjörsamlega úr takti við hugmyndafræði þeirra sem lögðu grunninn að frjálshyggjunni. Fylgismenn hinnar nýju frjálshyggju, til dæmis Milton Friedman, Ronald Reagan, Margaret Thatcher og Hannes Hólmsteinn Gissurarson, ganga talsvert lengra en fyrirrennarar þeirra, leggja ofuráherslu á markaðsfrelsi, afskiptaleysi og séreignarstefnu og vilja færa lögmál markaðarins inn á sem flest svið mannlífsins. Allra róttækustu frjálshyggjumennirnir kalla jafnvel skattlagningu ,,þjófnað", ríkisafskipti ,,eitur", ríkisstarfsmenn ,,möppudýr" og hafna regluverki og eftirlitskerfi með markaðnum. Milton Friedman, einn virtasti kenningasmiður hinnar nýju frjálshyggju, taldi að samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja lægi aðeins í skyldu þeirra til að hámarka gróða sinn. Friedman taldi ójöfnuð eðlilegan og sumpart hagkvæman og barðist fyrir einkavæðingu velferðarstofnana. Kenningar Friedmans fengu byr undir báða vængi á síðustu áratugum 20. aldar og voru víða stigin skref í átt að hugmyndafræði hans. Afleiðingin var oftar en ekki aukin misskipting og svæsnara arðrán auk þess sem velferðarkerfið var sums staðar brytjað niður. Þótt ,,frjálshyggjumennirnir" færu háfleygum orðum um frelsi og lýðræði varð raunin stundum allt önnur þegar hugmyndunum var hrint í framkvæmd, enda héldust þær oft í hendur við hernaðarbrölt, leynimakk og spillingu.

Eftir að íslenska bankakerfið hrundi hafa margir hægrimenn vísað því alfarið á bug að hér hafi ríkt nokkurs konar frjálshyggja. Benda þeir jafnan á að hér voru mikil ríkisútgjöld og tiltölulega háir skattar auk þess sem innlánatryggingar og lágmarkslaun voru tryggð í lögum. Þó fer vart á milli mála að hér á landi gætti töluverðra áhrifa nútímafrjálshyggju. Meðan Sjálfstæðisflokkurinn sat við völd voru, svo nokkur dæmi séu tekin, fjölmargar ríkisstofnanir og auðlindir einkavæddar, eigna- og hátekjuskattar lagðir af, erfðaskattar, fjármagnstekjuskattar og skattar á fyrirtæki lækkaðir verulega, Þjóðhagsstofnun lokað, ótal viðskiptahindrunum rutt úr vegi og fjármálastofnunum gefið hóflaust frelsi. Eins og Jón Steinsson hagfræðingur benti nýlega á var íslenska skattkerfið langt til hægri við hið bandaríska. Það var hægrisinnaðast af skattkerfum allra efnaðra OECD-ríkja! Ýmsir forvígismenn þessarar samfélagsþróunar voru yfirlýstir frjálshyggjumenn og aðdáendur Thatchers og Reagans. Þar að auki þyrptust hingað á góðærisárunum erlendir frjálshyggjupostular til að lofsyngja íslensku ,,frjálshyggjutilraunina", eins og Hannes Hólmsteinn kallaði hana. Auðvitað ríkti aldrei tandurhreinn og takmarkalaus kapítalismi hér á landi frekar en nokkurs staðar annars staðar, en það liggur í augum uppi að stigin voru stór skref í átt að hugmyndum Friedmans og annarra ,,frjálshyggjumanna". Þegar staðreyndirnar eru settar í samhengi skýtur því málflutningur hægrimanna skökku við; hann minnir um margt á það þegar kommúnistar reyna að sverja af sér Sovétríkin með því að segja að þar hafi sko aldrei ríkt neitt algjört sameignarfyrirkomulag.

Þótt ýmislegt greini að hugmyndafræði Friedmans og íslenska efnahagsundrið blasa við ótal sameiginleg einkenni. Í hvoru tveggja er lögð ofuráhersla á markaðsvæðingu, gróðahyggju og afskiptaleysi, og frammi fyrir þessu mega jöfnuður, umhverfisvernd og náungakærleikur sín lítils. Nútímafrjálshyggja kristallast í baráttu sjálfstæðismanna fyrir því að íslensku vatni sé komið í hendur einkaaðila. Hugsunarhátturinn birtist okkur svart á hvítu þegar hið svokallaða Frjálshyggjufélag gerir athugasemd með yfirskriftinni ,,Ekkert væl" við frétt á mbl.is þar sem tilkynnt er um uppsögn 60 manna. Málflutningur sem þessi stangast á við hugmyndir mannvinanna Adams Smiths og Johns Stuart Mills sem helguðu líf sitt baráttunni fyrir betra og mannúðlegra samfélagi.

Það er ærin ástæða fyrir því að orðið nýfrjálshyggja hefur öðlast sess í íslenskri stjórnmálaumræðu. Íslensk tunga þarfnast einfaldlega orðs sem aðgreinir hina klassísku frjálshyggju frá þeim frjálshyggjuhugmyndum sem tröllriðið hafa fræða- og stjórnmálaheiminum síðustu áratugi. Annað væri hreinlega vanvirðing við upphafsmenn frjálshyggjunnar.

Jóhann Páll Jóhannsson, nemandi við Menntaskólann í Reykjavík.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.