Lífið

Mezzoforte með The Animals í Búdapest

Hljómsveitin Mezzoforte spilaði í Ungverjalandi í gær við góðar undirtektir.
Hljómsveitin Mezzoforte spilaði í Ungverjalandi í gær við góðar undirtektir.
Hljómsveitin Mezzoforte spilaði í gær á tónlistarhátíð í Búdapest í Ungverjalandi ásamt þekktum sveitum á borð við Deep Purple, The Animals og Kool & The Gang.

„Þetta gekk mjög vel,“ segir saxófónleikarinn Óskar Guðjónsson sem hefur spilað með Mezzoforte að undanförnu. „Þetta er skemmtilegt. Maður hittir fullt af fólki sem maður hefði annars ekki hitt eins og músíkantana sem eru að spila í þessum böndum. Við erum búnir að hanga með Eric Burdon og strákunum í The Animals. Þetta eru mjög „næs“ atvinnumenn og það var gaman að rabba við þá um hitt og þetta. Strákarnir [Mezzoforte] tóku upp plötu í Los Angeles að hluta til. Þeir voru að ræða saman um gömul stúdíó og þessa stúdíósenu í L.A. sem var mjög fræg.“

The Animals er þekktust fyrir hið gríðarvinsæla House of the Rising Sun á meðan Deep Purple er þekkt fyrir Smoke on the Water og Kool & The Gang fyrir Get Down On It. Frægasta lag Mezzoforte er aftur á móti hið sívinsæla Garden Party frá árinu 1983.

Óskar segir það mikinn heiður að fá að spila á þessari hátíð, sem nefnist Stargarden. „En á endanum er þetta meira spurning um hversu gaman er að fá að ferðast um heiminn og spila þessa músík fyrir fólk, sama hver er á blaði við hliðina á manni.“

Mezzoforte spilaði fyrr á árinu í Höfðaborg í Suður-Afríku og voru það fyrstu tónleikar sveitarinnar í heimsálfunni. „Við spiluðum frían konsert áður en festivalið byrjaði. Það var ótrúlegt að vera í miðri Höfðaborg og sjá alla dansa og syngja með í Garden Party,“ segir Óskar. -fb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.