Erlent

Tælenski herinn lét til skarar skríða

Frá Bangkok í gærkvöldi. Að minnsta kosti fjórir eru látnir eftir átök.
Frá Bangkok í gærkvöldi. Að minnsta kosti fjórir eru látnir eftir átök. Mynd/AP
Tælenski herinn lét til skarar skríða gegn stjórnarandstæðingum í nótt. Að minnsta kosti fjórir eru látnir eftir átök í höfuðborginni Bangkok.

Aðgerðir stjórnarandstöðunnar hafa staðið yfir í um tvo mánuði en hún krefst þess að þing landsins verði leyst upp og að boðað verði til kosninga. Stjórnarandstæðingar eru stuðningsmenn Thaksins Shinawatra, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, sem steypt var af stóli fyrir fjórum árum.

Stríðsástand hefur ríkt í Bangkok og allar sáttaumleitanir hafa runnið út í sandinn. Rúmlega þrjú þúsund stjórnarandstæðingar hunsuðu lokafrest stjórnvalda til að hætta aðgerðum í gær. Í kjölfarið lét tælenski herinn til skarar skríða og heyrðust skothvellir frá höfuðborginni í morgun og í alla nótt. Að minnsta kosti fjórir stjórnarandstæðingar létu lífið og þá er talið að erlendur blaðamaður sé látinn en það hefur ekki fengið staðfest. Á sjötta tug eru særðir.

Frá því að seinni lota hinna hörðu átaka hófst fyrir viku hafa 42 manns týnt lífi og á fjórða hundrað eru sárir. Í heildina hafa meira en 70 látið lífið frá því mótmælaaðgerðirnar hófust fyrir tveimur mánuðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×