Erlent

Þú ert ekki nógu mikilvægur -út með þig

Óli Tynes skrifar
Síðari vélin á leið inn í Tvíburaturnana.
Síðari vélin á leið inn í Tvíburaturnana.

Níu ár eru á laugardag liðin frá hryðjuverkaárásinni á Bandaríkin. Af því tilefni hafa margir rifjað upp atburði þess dags.

Meðal þeirra er Condoleezza Rice sem þá var þjóðaröryggisráðsfulltrúi forsetans.

Bush las með börnum

Þegar fyrri flugvélin flaug á Tvíburaturnana í New York sat George Bush forseti í skólastofu í Flórída og las með skólabörnunum.

Aðstoðarmaður kom að forsetanum laut niður og hvíslaði fréttunum í eyra hans. Bush kinkaði kolli og hélt áfram að lesa með börnunum.

Það var ekki fyrr en hvíslað var að honum um síðari vélina sem forseinn sleit fundinum með börnunum.

Skelfing í Hvíta húsinu

Hann var hart gagnrýndur fyrir sein viðbrögð. Verjendur hans bentu raunar á að þetta hafi ekki verið í fyrsta skipti sem flugvél flaug á háhýsi í New York og ekki ljóst fyrr en eftir síðari vélina að þetta væri hryðjuverkaárás.

Í Hvíta húsinu var hinsvegar enginn skortur á skjótum viðbrögðum ef marka má Condoleezzu Rice.

Rice greinir frá þessu í þætti á bresku sjónvarpsstöðinni Channel 4, sem verður sendur út 11. september.

Hvíta húsið nánast tæmdist þegar allir þustu niður í kjarnorkuskýlið í kjallara þess.

Meðal þeirra var Dick Cheney, varaforseti. Mannfjöldinn var svo mikill að það fór að bera á súrefnisskorti.

Út með ykkur

Lífverðirnir í Secret Service gengu þá hreint til verks. Þeir fóru á milli manna og sögðu þar sem við átti; Þú ert ekki nógu mikilvægur, þú verður að fara.

Það hefur kannski orðið þessu fólki til lífs að farþegar í flugvél sem ætlað var að fljúga á Hvíta húsið gerðu uppreisn gegn flugræningjunum. Hún hrapaði á akur í Pennsylvaníu.

Fjórða vélin flaug svo á varnarmálaráðuneytið í Washington.

Öskraði á forsetann

Condoleezza Rice segir frá símtali sem hún átti við George Bush. Hann vildi snúa aftur til Washington en hún sagði að það væri of hættulegt.

Bandaríkin lægju undir árás og hann yrði að fara á öruggan stað. Það endaði með því að þau öskruðu hvort á annað, en forsetinn sneri aftur.

Fjarskipti brugðust

Rice segir einnig frá því að hið ofur tæknivædda fjarskiptakerfi Hvíta hússins hafi meira og minna brugðist.

Því hafi óvarðir farsímar verið notaðir til þess að koma mikilvægum skilaboðum á framfæri til hersins og annarra öryggissveita.

Það hefði getað reynst hættulegt ef óvinir hefðu legið á hleri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×