Skoðun

Um uppruna valdsins

Haukur Arnþórsson skrifar

Það liggur kannski ljóst fyrir hver upptök samfélagslegs valds eru hér á landi, þar sem stjórnarskráin hefst á orðunum „Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn", hvaðan stjórnsýslan og stjórnmálin hljóta hin tímabundnu en einstöku völd sín, í umboði hvers þau starfa, hverjum þau standa reikningsskil gerða sinna og hverjum þau í fyllingu tímans skila að lokum völdum sínum.

Um þetta hafa þó á ýmsum tímum verið skiptar skoðanir, nokkuð er síðan stjórnvöld hlutu völd sín frá guðlegum máttarvöldum, en styttra síðan konungar og aðrir fulltrúar aðals afhentu lýðræðisstofnunum völdin með semingi. Og þótt völdin séu fengin frá þjóðinni þar sem lýðveldi er, geta hugmyndir manna um samband almennings og valdhafa verið ólíkar frá einum tíma til annars og jafnvel myndast nokkurt bil milli fræðilegra hugmynda og raunverulegrar framkvæmdar.

Ýmislegt bendir til þess að þetta bil sé stærra hér á landi en í nágrannaríkjunum og að hugmyndir um ábyrgðarsamband gagnvart almenningi og um aðkomu almennings að lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku eigi auðveldara uppdráttar í öðrum Vestur-Evrópuríkjum og í Bandaríkjunum en hér á landi og styðja alþjóðlegar rannsóknir það.

Hér er gerð tillaga um að reynt verði að styrkja tengslin milli almennings og stjórnvalda og tryggja að stjórnvöld séu vakandi við að leita til almennings í starfi sínu.

Þannig er stungið upp á að ný stjórnarskrá fjalli í upphafsorðum sínum um hvaðan stjórnvöld og stjórnsýslan hafa völd sín á Íslandi. Slíkt ákvæði getur styrkt ýmis önnur ákvæði í stjórnarskrá og almennum lögum. Í stjórnarskránni gætu auk þess verið ákvæði um upplýsingarétt almennings og rétt hans til að kynna sér opinber mál til hlítar og um aðra og ákveðnari aðkomu hans að málefnum sem honum eru hugstæð, hvort sem það er með tillögugerð og samræðu á netinu eða með kröfu um aðkomu að ákvörðunartöku, til dæmis með (þjóðar)atkvæðagreiðslu.

Þessi breyting á stjórnarskrá er í takt við nútíma kröfur vestrænna netverja og annarra framsækinna hópa um ábyrgð og aðkomu að opinberu valdi, vísar til komandi upplýsingaaldar - og gæti verið málefnalegt mótspil gegn hagsmunagæslu sérhagsmunahópa.

Höfundur er stjórnsýslufræðingur og frambjóðandi til stjórnlagaþings.






Skoðun

Sjá meira


×