Erlent

Fjórir bandarískir hermenn drepnir

Hermanni bandaríkjahers hjálpað inn í sjúkraþyrlu í Zhari héraði í Kandahar í Afganistan á föstudag.
 Fréttablaðið/AP
Hermanni bandaríkjahers hjálpað inn í sjúkraþyrlu í Zhari héraði í Kandahar í Afganistan á föstudag. Fréttablaðið/AP
Fjórir bandarískir hermenn féllu í austur- og suðurhluta Afganistan í gær, að sögn NATO. Þrír þeirra létust í átökum við uppreisnar-menn en einn lést þegar hann varð fyrir heimagerðri sprengju. Þá varð fyrrum skæruliðaleiðtoginn Slaam Pahlawan fyrir bílsprengju í Faryab-héraði í norðurhluta landsins.

Pahlawan var í bíl ásamt sonum sínum, fimm og tíu ára, og tveimur lífvörðum þegar uppreinsnarmenn sprengdu bíl þeirra í loft upp með fjarstýrðri sprengju. Hann barðist við sovéskan innrásarher á níunda áratugnum en margir eftirlifandi hermenn frá þeim tíma hafa verið skotmörk talibana vegna samvinnu þeirra og ríkistjórnarinnar í Kabul.

Það sem af er þessum mánuði hafa 42 hermenn verið drepnir í Afganistan, en þar af eru 28 bandarískir hermenn. Sextíu og sex bandarískir hermenn létu lífið í júlí en þeir hafa ekki verið fleiri frá því ráðist var inn í landið árið 2001.

Nákvæm staðsetning átakanna í gær er ekki ljós en þó hafa borist fréttir af hörðum átökum í Jaji-umdæmi í austurhluta Paktiya-héraðs, um 12 kílómetra frá landamærum Pakistan. Afganski herinn og landamæralögreglan komu bandarískum hermönnum til aðstoðar á jörðu niðri og þyrlur gerðu árás úr lofti, að sögn afganska hersins. Ekki er vitað hve margir vígamenn féllu. -ve



Fleiri fréttir

Sjá meira


×