Innlent

Vigta gesti og gangandi

Sálfræingurinn Sigrún Daníelsdóttir er ...
Sálfræingurinn Sigrún Daníelsdóttir er ... Mynd/GVA
„Við erum öll mismunandi vaxin frá náttúrunnar hendi og því er ekki farsælt ef ein tegund líkamsvaxtar þykir fín og önnur ekki. Það leiðir til félagslegrar flokkunar og mismununar sem skapar togstreitu og vanlíðan,“ Sigrún Daníelsdóttir sálfræðingur sem er í forsvari fyrir Megrunarlausa daginn sem haldinn verður næstkomandi fimmtudag. Þá gefst gestum og gangandi í Kringlunni og Smáralind kostur á að stíga á heldur óhefðbunda vigt.

Megrunarlausi dagurinn er baráttudagur gegn þeim viðhorfum í samfélaginu að það sé gott að vera grannur og slæmt að vera feitur. Þetta er í fimmta sem dagurinn er haldinn hér á landi. Árið 1992 stofnaði Mary Evans Young, fyrrum átröskunarsjúklingur, International No Diet Day til þess að vekja athygli á skaðlegum áhrifum útlitsdýrkunar og mismununar í garð þeirra sem falla utan hins viðurkennda ramma um æskilegan líkamsvöxt.

Fáir lifa í sátt við líkama sinn

Sigrún segir að flestir þegnar vestrænna samfélaga líða fyrir þessi viðhorf og þá einkum konur. Afleiðingin sé sú að fáir lifi í sátt við líkama sinn. Slík vanlíðan geti verið undanfari geðrænna vandamála á borð við þunglyndi, átraskanir og jafnvel sjálfsvígstilraunir.

Sigrún segir að vanlíðan sem rekja megi til áhrifa útlitsdýrkunar geti hafi slæm áhrif lífsvenjur fólks og ýtt undir ofát og hreyfingarleysi. „Við sem stöndum að Megrunarlausa deginum teljum algjörlega nauðsynlegt að koma á viðhorfsbreytingu innan samfélagsins varðandi þessi mál.“

Ekki dagur til að borða yfir sig af snakki

Viðbrögðin við Megrunarlausa deginum hafa verið mjög jákvæð og vaxandi með hverju árinu, að sögn Sigrúnar. „Auðvitað eru alltaf einhverjir sem misskilja og halda að þetta sé dagur til þess að borða yfir sig af snakki og sælgæti en það er alls ekki boðskapur dagsins.“

Sigrún segir að það undirstriki hugsanlega sjúkleika samfélagsins þegar talað er um að hætta í megrun þá hugsi margir að það þýði óhóf í hina áttina. „Enda leiða megrunartilraunir oft til ofáts þar sem öfgarnar vilja kalla á hvor aðra. Við höfum hins vegar orðið vör við að sífellt fleiri eru að kveikja á því að til þess að líða vel í lífinu þurfum við að sættast við okkur sjálf eins og við erum og við aðra eins og þeir eru.“

Sigrún segir að allir geti hugsað vel um líkama sinn óháð því hvað vigtin segi. Að hennar mati eru meiri líkur á því að fólk haldi jákvæðum lífsvenjum ef góð heilsa og vellíðan eru markmið í sjálfu sér, en ekki talan á vigtinni.

Vigtin sýnir jákvæð lýsingarorð



„Í ár munum við vera í Kringlunni og Smáralind með bæklinga, barmmerki og ýmislegt dreifiefni ásamt nýstárlegri vigt sem við ætlum að bjóða gestum og gangandi að stíga á,“ segir Sigrún aðspurð hvernig haldið verði upp á daginn í ár. Vigtin sýni jákvæð lýsingarorð eins og töff, frábær, heillandi í staðinn fyrir tölur.

„Markmiðið er að vekja athygli á því hvað vigtin er orðin að neikvæðu afli í lífi okkar þar sem við leyfum henni að dæma okkur. Ef talan sem birtist er lág þá erum við góð, falleg, spennandi og skemmtileg en ef hún er há þá er það áfellisdómur yfir okkur. Við viljum benda á að mannkostir eru ekki mældir í kílóum og við höfum öll góða eiginleika óháð holdafari,“ segir Sigrún.

Nánari upplýsingar um Megrunarlausa daginn er hægt að nálgast á vefsíðunni www.likamsvirding.is.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×