Handbolti

Aron: Gerist ekki betra

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. Mynd/AFP
Aron Pálmarsson átti eins og svo oft áður afar sterka innkomu í íslenska liðið þegar það þurfti mikið á tilbreytingu að halda og skoraði tvö góð mörk.

„Þetta er fínt hlutverk hjá mér og ég er mjög sáttur við mitt," sagði hann glaðbeittur eftir sigur Íslands á Noregi í dag, 35-34. Með sigrinum tryggði liðið sér sæti í undanúrslitum EM í Austurríki.

„Ég er mjög ánægður og það sem ég er að gera er greinilega að virka. Ég er að finna mig mjög vel í þessu hlutverki. Svo lengi sem þetta skilar sér í sigrum og jafntefli þá er ég sáttur."

Hann segir að það hafi reynst erfitt fyrir íslenska liðið að hrista það norska af sér í kvöld.

„Það tók ákveðinn tíma og okkur tókst í raun aldrei að slíta þá almennilega frá okkur fyrr en það var ein mínúta eftir og við náðum þriggja marka forystu."

„En eru það ekki skemmtilegustu leikirnir? Bæði fyrir okkur og þá sem heima sitja," spurði hann og hló. „Noregur er með klassalið og gerðu þetta erfitt fyrir okkur."

En hvernig skyldi reynslan af fyrsta stórmóti Arons verið hingað til?

„Hún hefur verið frábær. Sérstaklega að fá að spila með þessu liði. Við erum taplausir og komnir í undanúrslit - og ég er að fá að spila. Það gerist ekki betra en þetta."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×