Erlent

Norðmenn reka fimmþúsund úr landi

Óli Tynes skrifar
Þinghúsið í Osló.
Þinghúsið í Osló.

Norðmenn eru farnir að taka mun harðar á innflytjendamálum en áður. Á síðasta ári voru 3340 fluttir nauðugir úr landi.

Í mörgum tilfellum var það með flugvélum sem Norðmenn leigðu einir og sér, en það var einnig gert í samvinnu við Svía eða Evrópusambandið.

Ein af síðustu slíkum ferðum á síðasta ári var í desember þegar þrjátíu íraskir karlmenn voru fluttir úr landi í fylgd sextíu norskra lögregluþjóna.

Knut Storberget dómsmálaráðherra sagði í samtali við norska útvarpið að miklu fleiri verði sendir úr landi á þessu ári.

Stefnt sé að því að flytja að minnsta kosti fimmþúsund manns nauðungarflutningum.

Ráðherrann sagði að þegar væri búið að leigja flugvél fyrir fyrsta hópinn en vildi ekki gefa upp neina dagsetningu á því flugi.

Þeim hefur nú fækkað verulega sem sækja um hæli í Noregi. Í janúar á síðasta ári sóttu 1300 manns um hæli. Í ár voru þeir aðeins 800.

Ráðherrann telur vafalaust að þar gæti áhrifa hertrar stefnu stjórnvalda.

Flóttafólk sem viti að það hafi ekki forsendur fyrir því að fá landvistarleyfi í Noregi sjái að það þýði ekki að reyna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×