Handbolti

Myrhol: Vorum rændir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Myrhol í leik gegn Austurríki.
Myrhol í leik gegn Austurríki.

Norski landsliðsmaðurinn Bjarte Myrhol var ansi niðurlútur þegar að Vísir hitti á hann eftir leik Danmerkur og Noregs í Vín í kvöld.

Danmörk vann leikinn, 24-23, með því að skora úr vítakasti á lokasekúndu leiksins. Skömmu áður hafði Kasper Hvidt varið víti Norðmanna hinum megin á vellinum.

„Mér líður eins og að við vorum rændir tveimur stigum í dag,“ sagði Myrhol.

„Við vorum betra liðið frá fyrstu mínútu fram á þá síðustu. En samt vann Danmörk og það fæ ég með engu móti skilið.“

Ísland mætir Noregi á föstudaginn og getur með sigri tryggt sér sæti í undanúrslitunum.

„Við erum ekki enn byrjaðir að hugsa um leikinn gegn Íslandi en við þurfum væntanlega að skora mörg mörk til að eiga möguleika á sæti í undanúrslitunum,“ sagði Myrhol.

Noregi dugir reyndar fjögurra marka sigur á Íslandi og þarf þá einnig að treysta á að Króatar vinni Dani síðar um kvöldið. Þá komast Norðmenn áfram í undanúrslit en Ísland og Danmörk sitja eftir.

„Það virðist alla vega vera mjög erfið leiðin fyrir okkur að undanúrslitunum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×