Handbolti

Arnór: Fór eins og við vonuðumst til

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Arnór fagnar í leiknum í dag.
Arnór fagnar í leiknum í dag.

„Þetta fór eins og við vonuðumst til en þorðum ekki að segja upphátt,“ sagði glaðbeittur Arnór Atlason eftir sigur Íslands á Rússlandi í dag, 38-30.

„Þeir voru að spila í gærkvöldi klukkan átta en við í gær klukkan fjögur. Þarna munar fjórum tímum sem getur haft heilmikið að segja. Þeir hafa þar að auki ekki að neinu að keppa í sjálfu sér.“

„Við vissum því að ef við myndum byrja alveg á fullu þá gætum við slegið þá út af laginu. Það var líka það sem gerðist í dag.“

„Þetta var því ekki venjulegt rússneskt lið sem við mættum í dag,“ sagði Arnór.

„En það verður að gefa okkur smá hrós líka. Við spiluðum mjög vel, bæði í vörn og sókn. Það er ekkert nema gott um það að segja.“

Íslendingar lentu í talsverðum vandræðum með markvörð Rússa, Oleg Grams, sem varði nítján skot. Hann var þó ekki valinn besti maður Rússa sem verður að teljast furðulegt.

„Hann varði í mörgum dauðafærum en svona lagað vill kannski gerast þegar maður er að vinna stórt - þá dettur einbeitingin aðeins niður.“

„En við höfum engar áhyggjur af því. Nú eru tæpir tveir sólarhringar í næsta leik og nú getum við notið þess að horfa á hina leikina á hótelherberginu. Það er svo gott að eiga fyrsta leik á föstudaginn - þá þurfum við ekki að spá í neinu öðru og bara unnið okkar leik.“

„Við erum enn taplausir á mótinu sem er frábært. Við eigum því alla möguleika - það er bara þannig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×