Viðskipti innlent

Svikamyllur í Nígeríu nota nafn Íslands til fjársvika

Þekktar tölvupóstsvikamyllur sem eiga uppruna sinn í Nígeríu nota nú nafn Íslands til fjársvikatilrauna sinna. Fjallað er um málið á bloggsíðum Reuters.

Hingað til hafa tölvupóstar frá Nígeríu yfirleitt sagt viðtakenda þeirra að persónan sem sendir þá sé annaðhvort afsettur einræðisherra í Afríku eða lögmaður frá Nígeríu. Lofað er háum fjárhæðum ef viðtakandinn vilji aðstoða þann sem sendir póstinn við að ná út innistæðum sem eru læstar inni á reikningum hér og þar í heiminum. Það eina sem viðtakandinn þurfi að gera er að senda smáupphæð inn á reikning í Nígeríu til að aðstoða við að koma málinu í gang.

Í nýjustu útgáfunni af þessum tölvupóstum eru þeir sagðir vera sendir frá Íslandi. Sendandinn segir að hann sé „sannkristin ekkja frá Íslandi" sem er að leita sér aðstoðar við að ná út 6 milljónum dollara sem látinn eiginmaður hennar hafi átt inni í kanadískum banka. Samkvæmt póstinum vann eiginmaðurinn í 19 ár hjá olíurisa.

Fyrir utan margvíslegar réttritunarvillur kemur fram að eiginmaðurinn látni hafi kosið að geyma fé sitt í Kanada frekar en íslenskum banka, nokkuð sem bloggarar furða sig á þar sem vextir á reikningum í íslenskum bönkum voru mun hærri en í Kanada, það er fram að hruninu 2008.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×