Viðskipti innlent

Gunnar Helgi nýr formaður bankaráðs Landsbankans

Bankasýsla ríkisins hefur skipað þau Gunnar Helga Hálfdanarson, Guðríði Ólafsdóttur, Hauk Halldórsson og Sigríði Hrólfsdóttur sem aðalmenn í bankaráð Landsbanka Íslands (NBI hf.). Gunnar Helgi verður stjórnarformaður bankans. Varamenn skipaðir af Bankasýslu ríkisins eru þau Andri Geir Arinbjarnarson, Guðrún Ragnarsdóttir, Loftur Árnason og Þórdís Ingadóttir. Tók nýtt bankaráð við á aðalfundi bankans fyrir árið 2008 sem haldinn var í dag.

Bankasýslan fer með 81,3% eignarhlut ríkisins í Landsbanka og skipar fjóra stjórnarmenn af fimm. Skilanefnd Landsbankans, sem fer með 18,7% eignarhlut í Landsbankanum, skipar fimmta stjórnarmanninn.

Rætt hefur verið innan Bankasýslunnar hvort rétt geti verið að fjölga fulltrúum í bankaráð Landsbankans og verður ákvörðun um það tekin fyrir aðalfund ársins 2009 sem haldinn verður í apríl næstkomandi, að fram kemur í tilkynningu frá Bankasýslunni. Markmiðið með slíkri fjölgun væri að styrkja bankaráðið í ljósi þeirra umfangsmiklu og vandasömu verkefna sem framundan eru við uppbyggingu Landsbankans. Þá er einnig til skoðunar hvort leita eigi til erlendra sérfræðingu varðandi stjórnarsetu.

„Ég fagna því að nýtt bankaráð Landsbanka Íslands hafi verið skipað. Bankaráðinu bíður mikið starf við enduruppbyggingu bankans en eitt fyrsta verkefni ráðsins verður að auglýsa eftir og ráða nýjan bankastjóra. Þeir tveir karlar og tvær konur sem Bankasýslan skipar í ráðið eru valin úr stórum hópi hæfileikafólks og ánægjulegt að sjá hversu margir vilja leggja sitt af mörkum við endurreisn íslensks fjármálalífs. Við leggjum mikið upp úr jafnrétti kynjanna við val á stjórnarmönnum og viljum sjá þau sjónarmið ráða ferðinni þegar stjórnarmenn dótturfyrirtækja bankans verða valdir," segir Elín Jónsdóttir, forstjóri Bankasýslu ríkisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×