Handbolti

Er orðinn goðsögn hérna

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ragnar Snær Njálsson.
Ragnar Snær Njálsson.

Það gengur mikið á hjá handknattleikskappanum Ragnari Snæ Njálssyni þessa dagana. Hann er búinn að framlengja samningi sínum við þýska C-deildarfélagið Bad Neustadt og er þess utan nýkominn úr aðgerð.

„Þetta var svakaaðgerð sem ég fór í. Ég fékk högg fyrir nokkru síðan og þegar ég var rannsakaður kom í ljós risaskemmd í brjóskinu í hnénu. Þetta leit alls ekki nógu vel út en ég kláraði nú samt tímabilið," sagði Ragnar Snær við Vísi en hann lagðist svo undir hnífinn í lok tímabilsins.

„Þetta var mun stærri aðgerð en þetta átti að vera. Ég má ekki stíga í fótinn i sex vikur. Það var samt gott að þetta var gert núna svo ég verði klár í slaginn þegar næsta tímabil byrjar," sagði Ragnar en hann var heppinn að upp komst um brjóskskemmdirnar í tíma.

„Læknirinn sagði að ef aðgerðin hefði ekki verið gerð núna þá hefði ég líklega ekki spilað handbolta aftur. Ég hefði þess utan líklega lent í vandræðum með að labba eftir nokkur ár. Ég var því heldur betur heppinn."

Eins og áður segir er Ragnar Snær búinn að framlengja við Bad Neustadt til eins árs og hann er hæstánægður með það.

„Ég er virkilega sáttur við að vera hér áfram. Þetta er flott félag og það er virkilega vel hugsað um mann hérna. Liðið ætlar sér upp um deild næsta vetur og það er mikill hugur í mönnum. Líka mikil stemning fyrir handbolta hérna og alltaf full höll," sagði Ragnar sem hefur sjálfur verið að spila vel og segist vera kominn í guðatölu hjá stuðningsmönnum félagsins.

„Það hefur gengið rosalega vel hjá mér og ég er bara strax orðinn goðsögn hjá stuðningsmönnum félagsins. Það er ekkert leiðinlegt. Við unnum einhverja átta leiki í röð þar sem mér gekk mjög vel og áhorfendurnir tóku ástfóstri við mig. Það er ekki hægt að kvarta yfir því," sagði Ragnar jákvæður á spítalanum en hann verður væntanlega byrjaður að æfa eftir tíu vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×