Viðskipti innlent

Gjaldeyrisviðskipti að mestu framhjá millibankamarkaði

Krónan er í gíslingu gjaldeyrishaftanna og getur sig lítið hreyft. Gjaldeyrisviðskipti fara að mestu fram hjá millibankamarkaðinum og því er verðmyndun ófullkomnari en ella.

Þetta segir í vikulegum Markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa. Þar er greint frá því að krónan veiktist aðeins í síðustu viku og hækkaði gengisvísitalan um 0,18% skv. opinberu viðmiðunargengi Seðlabankans og endaði í 231,69 stigum.

„Lítil viðskipti eru á millibankamarkaði með krónuna og skýrast breytingar á gengisvísitölunni fyrst og fremst af innbyrðis sveiflum á gjaldmiðlum sem í vísitölunni eru," segir í Markaðsfréttunum.

„Það er ljóst að gjaldeyrishöft eru óheppileg til lengri tíma og ljóst að erfitt verður að vinda ofan af þeim og í raun illmögulegt nema aðgengi að erlendu fjármagni sé tryggt.

Það virðist hins vegar standa og falla með lausn Icesave málsins. Icesave málið er því sem flest strandar á um þessar mundir og því ljóst að það verður að leysast fyrr en seinna svo endurreisn efnahagslífsins geti haldið áfram."

Við þetta má bæta að samkvæmt hagtölum Seðlabankans hafa gjaldeyrisviðskipti á millibankamarkaði aðeins verið á einum degi það sem af er febrúar. Þau voru ekki umfangsmikil eða velta upp á 354 milljónir kr. þann 2. febrúar s.l.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×