Erlent

Hungursneyð vofir yfir N-Kóreu

Óli Tynes skrifar
Norður-Kórea heldur úti meira en milljón manna her, en getur ekki brauðfætt þegnana. Landið hefur undanfarin ár lifað á alþjóðlegum matvælagjöfum ekki síst frá Suður-Kóreu.

Samtökin World Food Program segja að matarbirgðirnar klárist í næsta mánuði. Yfir vofi hungusneyð sem geti orðið jafn alvarleg og á níunda áratugnum þegar talið er að tvær milljónir manna hafi látist.

Eftir að Norður-Kóreumenn urðu uppvísir að því að sökkva herskipi frá Suður-Kóreu stendur landið nú andspænis enn hertum refsiaðgerðum og viðskiptaþvingunum.

Norðanmenn neita allri sök en alþjóðleg rannsóknarnefnd segir engan vafa leika á að það hafi verið tundurskeyti frá norður-kóreskum kafbáti sem grandaði korvettunni Cheonan. Fjörutíu og sex sjóliðar létu lífið.

Það sem menn spyrja sig um er hvers vegna skipinu var sökkt?

Þótt erfitt sé þegar best lætur að skilja ákvarðanir sem teknar eru í Norður-Kóreu eru það gömul sannindi og ný að þegar illa árar í einræðisríkjum reyna leiðtogarnir tíðum að draga athygli frá ástandinu innanlands með því að fara í stríð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×