Lífið

Bakveikur Bono óttaðist 360 gráðu mistök

Sviðið á tónleikum U2 er óvenjulegt og minnir einna helst á risavaxna könguló.
Sviðið á tónleikum U2 er óvenjulegt og minnir einna helst á risavaxna könguló.
Söngvarinn Bono óttaðist að 360 gráðu-tónleikaferð U2 myndi mistakast. Sviðið er mjög óvenjulegt og geta áhorfendur séð það úr öllum áttum.

„Ef þetta hefði klikkað á fyrstu tónleikunum þá hefðum við verið í slæmum málum,“ sagði Bono sem er að jafna sig eftir bakaðgerð og er hljómsveitin því í hléi frá tónleikaferðinni. „Hugsið ykkur rokktónleika í 360 gráðum á stærð við risastóra hasarmynd, nema hvað að þú þarft að færa tökustaðinn á nokkurra daga fresti. Þú ert að byggja heila borg og brjóta hana síðan niður, setja hana í flutningabíla og flytja. Þetta er stórmerkilegt,“ sagði Bono. „Við verðum að reyna að gefa áhorfendum eitthvað sem þeir hafa aldrei upplifað áður.“

Bassaleikarinn Adam Clayton segir að þessi óvenjulega sviðsmynd hafi verið hugmynd Bono. „Þetta var hans hugsjón enda er hann þannig skemmtikraftur. Við hinir værum sáttir við að standa uppi á gömlum bjórkössum en hann þarf að nota sviðið eins og hann getur,“ sagði hann.

U2 þurfti nýlega að aflýsa tónleikaferð sinni um Norður-Ameríku og tónleikum sínum á Glastonbury vegna bakmeiðsla Bono. „Fyrir tónlistarmann sem er alltaf uppi á sviði er þetta mikið áfall,“ sagði Paul McGuinnes, umboðsmaður U2. „Honum líður eins og hann hafi valdið hljómsveitinni og áhorfendunum miklum vonbrigðum.“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.