Erlent

Fá verðlaun fyrir að veiða norskan eldislax

Laxveiðimenn flykkjast nú til bæjarins Sunde við vesturströnd Noregs. Nær níu þúsund laxar sluppu úr fiskeldiskvíum við bæinn og lofar fiskeldisstöðin að borga 4.000 krónur fyrir hvern lax sem næst á land.

Um er að ræða fiskeldisstöðina Viking Fjord en laxarnir sluppu úr kvíum sínum þegar verið var að leggja rör við hlið þeirra. Svo óheppilega vildi til að við þá vinnu rifnuðu netin í kvíunum og laxahjörðin slapp út í fjörðinn sem þær eru staðsettar í.

Samkvæmt fréttum í norskum fjölmiðlum var um að ræða laxa sem voru á síðustu stigum eldsins og er meðalstærð þeirra um 11 pund. Viking Fjord hefur ráðið fjölda manns við að reyna að endurheimta laxinn en þegar ljóst var að það dugði ekki til var boð sent til allra laxveiðimanna í Noregi um að þeir gætu bæst í hópinn og myndu þeir fá 200 krónur norskar eða um 4.000 krónur fyrir hvern lax sem þeir kæmu með upp á hafnarbakkann í Sunde.

Ástæðan fyrir þessum umfangsmiklu aðgerðum Viking Fjord er að laxarnir sluppu rétt við Etnefjörðinn en í hann rennur áin Etne sem er mikilvægasta laxveiðiá Hörðalands. Hætta er talin á ferðum fyrir hinn villta lax sem gengur í ánna ef eldislaxinn nær að blandast honum og breyta þar með erfðaeiginleikum hins villta laxs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×