Viðskipti innlent

Tveir skilanefndarmenn skulduðu 4,7 milljarða

Stefán Einar Stefánsson
Stefán Einar Stefánsson

„Þegar menn í skilanefndum eru með milljarðalán í annarri lánastofnun þarf að vera mjög öflugt eftirlit með þeim. Menn geta fallið í freistni," segir Stefán Einar Stefánsson viðskiptasiðfræðingur og kennari við Háskólann í Reykjavík.

Fram kom í Fréttablaðinu í gær að félög í eigu Heimis V. Haraldssonar endurskoðanda, sem situr í skilanefnd Glitnis, hafi í lok árs 2008 skuldað 1,2 milljarða króna, að mestu í Landsbankanum. Þá greindi DV frá því um miðjan mánuðinn að félag, sem lögmaðurinn Ólafur Garðarsson á rúmlega 22 prósenta hlut í, skuldaði Icebank 3,5 milljarða króna í lok sama árs. Ólafur situr í slitastjórn Kaupþings.

Haft var eftir Gunnari Andersen, forstjóra Fjármálaeftirlitsins (FME), í Fréttablaðinu í gær að almennt væri ekki viðeigandi að félög fólks í skilanefndum glímdu við mikla skuldabyrði. Skilanefndir voru skipaðar í óðagoti við fall bankanna haustið 2008 og fjárhagslegir hagsmunir skilanefnda ekki kannaðir í þaula. Sem dæmi átti Heimir frumkvæðið að því að gera grein fyrir hagsmunum sínum gagnvart Landsbankanum.

Stefán segir geta verið flókið mál að skipa í skilanefndir. Bæði verði að hafa í huga að viðkomandi geti staðið í skuld við bankann, verið í hópi kröfuhafa eða unnið hjá fyrirtækjum, sem eigi kröfu á hann. - jab








Fleiri fréttir

Sjá meira


×