Innlent

Ljósleiðaratenging meiri bylting en hringvegurinn

Knútur Bruun. Eitt minnsta fjarskiptafélag landsins hefur ljósleiðaratengt Öræfasveit. Stofnkostnaður notenda nemur hálfri milljón króna. Einhugur var um að ráðast í framkvæmdina. Sömdu við Vodafone um þjónustu.
Knútur Bruun. Eitt minnsta fjarskiptafélag landsins hefur ljósleiðaratengt Öræfasveit. Stofnkostnaður notenda nemur hálfri milljón króna. Einhugur var um að ráðast í framkvæmdina. Sömdu við Vodafone um þjónustu.

Formleg opnun ljósleiðaranets fyrir um 50 sveitabæi í Öræfasveit fer fram á morgun, föstudaginn 3. september. „Haldin verður opnunarhátíð í Hólmgarði í Öræfasveit," segir Knútur Bruun, stjórnarformaður Fjarskiptafélags Öræfinga. „Bæjarstjórinn á Höfn telur þetta meiri framfarir en opnun hringvegarins. Enda getur maður nú setið í Öræfasveit og átt viðskipti við heiminn allan, auk möguleika í tengslum við fjarkennslu og annað slíkt. Þetta bætir öll búsetuskilyrði og heldur ungu fólki heima í sveitinni."

Lokið hefur verið uppsetningu og tengingu ljósleiðaranets sem nær allt frá Reynivöllum í austri að Skaftafelli í vestri. „Við þetta ljósleiðaranet eru tengdir allir bæir og fyrirtæki á svæðinu. Öræfasveitin er sem sagt öll komin í ljósleiðarasamband, jafnfullkomið og best gerist í þéttbýlinu.

Knútur segir stofnun fjarskiptafélagsins og lagningu leiðarans hafa átt sér nokkra forsögu. „Auk Fjarskiptafélags Öræfinga, minnsta fjarskiptafélags landins, koma að verkefninu RARIK, sem átti meginstrenginn frá Reynivöllum og út í Skaftafell, og Fjarski sem er fyrirtæki í eigu Landsvirkjunar." Kerfið tengist svo inn á „Nató-ljósleiðarann" og þar með inn á hringtengingu um landið. „Og Vodafone flytur fyrir okkur allt efni á sömu kjörum og sömu gæðum og gerist í þéttbýli."

Til bráðabirgða þarf Vodafone hins vegar að leigja gagnaflutning af Mílu vegna dráttar sem orðið hefur á að fyrirtækið komist í samband við einn af átta ljósleiðarastrengjum sem hringtengja landið. „Það er reyndar kapítuli út af fyrir sig að Míla skuli ekki hleypa þeim í strenginn," segir Knútur.

Ráðist var í verkið eftir að sonur Knúts, Ingólfur Bruun, frétti af því að leggja ætti þriggja fasa rafmagn frá Reynivöllum og út í Skaftafell. „Hann hvatti til þess að lagður yrði ljósleiðari um leið." Með þessu segir Knútur að stórar fjárhæðir hafi sparast vegna þess hve jarðvegsvinna sé stór hluti af kostnaði við að leggja ljósleiðara.

„Allir í sveitinni voru sammála um verkið og búið að borga þetta allt saman. Þessir rúmlega 50 bændur borga 15 milljónir króna og bæjarstjórnin styrkir verkið um sjö milljónir og Fjarski hefur lagt í verkið fimm til sex milljónir."

Hver notandi borgar 500 þúsund krónur í stofnkostnað og telur Knútur að þetta verklag kunni að verða öðrum byggðum fordæmi við að færa fjarskiptamál til nútímans. „Við fengum enga styrki, ekkert frá Fjarskiptasjóði sem styrkir ekki svona verkefni, en á sama tíma og við vorum að ljúka við þetta fékk Míla, eða Síminn styrk til að setja upp ADSL-kerfi í sveitinni sem enginn kemur til með að nota."

olikr@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×