Erlent

Segjast hóflega bjartsýnir

Leiðtogar Ísraels sögðu árásina ekki hafa áhrif á viðræðurnar og hvöttu landtökumenn til að sýna stillingu.nordicphotos/AFP
Leiðtogar Ísraels sögðu árásina ekki hafa áhrif á viðræðurnar og hvöttu landtökumenn til að sýna stillingu.nordicphotos/AFP

 Litlar vonir virðast bundnar við að nýjar viðræður Ísraela og Palestínumanna skili árangri, þótt þátttakendur segist hóflega bjartsýnir.

Bæði Benjamin Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, og Mahmoud Abbas, forseti Palestínustjórnar, komu til Washington á þriðjudag og hittu þar Hillary Clinton utanríkisráðherra. Í gær hittu þeir síðan Barak Obama Bandaríkjaforseta og snæddu kvöldverð með Abdullah Jórdaníukonungi og Hosni Mubarak Egyptalandsforseta.

Helstu deilumálin virðast sem fyrr í algerum hnút.

Ehud Barak, varnarmálaráðherra í stjórn Netanjahús, sagðist þó í viðtali við ísraelska dagblaðið Haaretz, sem birtist í gærmorgun, vera til í að afhenda Palestínumönnum hluta af austurhluta Jerúsalemborgar til að liðka fyrir niðurstöðu.

Viðræðurnar fóru af stað í skugga blóðbaðs á Vesturbakkanum, því daginn áður hafði vopnaður Palestínumaður drepið fjóra ísraelska landtökumenn skammt frá Hebron. Landtökufólkið, tveir karlar og tvær konur, voru á ferð í bifreið þegar Palestínumaðurinn hóf skothríð.

Eftir að Hamas-samtökin höfðu lýst yfir ábyrgð á árásinni brugðust palestínsk stjórnvöld á Vesturbakkanum við með því að handtaka meira en 150 Hamas-liða.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×