Erlent

Átta fallnir í mótmælum

Götubardagar Á annað hundrað stjórnarandstæðingar særðist í mótmælunum í miðborg Bangkok í gær. Mótmælin hafa nú staðið í tvo mánuði, og hafa alls 37 látið lífið í átökum mótmælenda og hermanna.Nordicphotos/AFP
Götubardagar Á annað hundrað stjórnarandstæðingar særðist í mótmælunum í miðborg Bangkok í gær. Mótmælin hafa nú staðið í tvo mánuði, og hafa alls 37 látið lífið í átökum mótmælenda og hermanna.Nordicphotos/AFP

Mótmælendum laust saman við hermenn í miðborg Bangkok, höfuðborgar Taílands í gær. Hermenn skutu af hríðskotarifflum á mannfjöldann. Átta létust í átökunum í gær og í það minnsta 101 slasaðist.

Þegar kvölda tók í Bangkok í gær mátti heyra sprengingar og byssuhvelli frá viðskiptahverfi borgarinnar, þar sem um það bil tíu þúsund stjórnarandstæðingar hafa hreiðrað um sig. Reykur frá götuvígjum með brennandi dekkjum lagðist yfir borgina.

„Hermennirnir eru að umkringja okkur, það er verið að kremja okkur. Þetta er ekki borgarastyrjöld, en þetta er hrikalega grimmilegt,“ sagði Weng Tojirakarn, einn leiðtoga mótmælenda í gær.

Eftir því sem ofbeldið eykst minnka líkurnar á því að mótmælendur og stjórnvöld nái friðsamlegri lendingu í langvinnri deilu sinni. Óvissan og ofbeldið hafa dregið verulega úr komu ferðamanna til Taílands, en ferðamenn eru ein aðaltekjulind landsins.

Ofbeldið færðist enn í aukana eftir að hershöfðingi hliðhollur hinum rauðklæddum uppreisnarmönnum var skotinn í höfuðið í miðju viðtali við fjölmiðlamenn á fimmtudag. Hann liggur nú milli heims og helju á sjúkrahúsi. Mótmælendur halda því fram að leyniskytta á vegum stjórnvalda hafi reynt að myrða hershöfðingjann.

Hermenn skrúfuðu í gær fyrir vatn og rafmagn í viðskiptahverfinu þar sem mótmælendur hafa haldið til undanfarnar vikur. Yfirmenn hersins segja mótmælendur hafa ráðist gegn hermönnunum og reynt að ögra þeim, en mótmælendur segja hermenn hafa þrengt að sér.

Vitni lýsa götubardögum þar sem mótmælendur hentu steinum og bensínsprengjum og hermenn svöruðu með hríðskotarifflum, haglabyssum og táragasi.

Frá því mótmælendurnir komu sér fyrir í miðborginni um miðjan mars hafa 37 látið lífið og hundruð særst í átökum við lögreglu og hermenn.

Mótmælendur krefjast þess að forseti landsins víki og boðað verði til kosninga. Þeir styðja Thaksin Shinawatra, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, sem velt var úr embætti með valdaráni hersins árið 2006. Talið er að hann fjármagni mótmælin að hluta úr útlegð sinni.

brjann@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×