Handbolti

Róbert mætir þjálfaranum sínum í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar
Hasanefendic að stýra Gummersbach.
Hasanefendic að stýra Gummersbach.

Alla jöfnu eru þeir Róbert Gunnarsson og þjálfarinn Saed Hasanefendic samherjar hjá Gummersbach í þýsku úrvalsdeildinni en þeir verða andstæðingar á EM í handbolta í kvöld.

Hasanefendic er landsliðsþjálfari Serbíu sem verður andstæðingur íslenska landsliðsins í fyrstu umferð riðlakeppninnar í Linz.

Þeir tveir eru þeir ekki einu samherjarnir sem munu mætast í kvöld en þeir Aron Pálmarsson og Momir Ilic leika saman hjá þýska stórliðinu Kiel sem Alfreð Gíslason þjálfar. Ilic er þar lykilmaður, rétt eins og í serbneska landsliðinu og þurfu Íslendingar að hafa góðar gætur á honum.

Þá eru þeir Björgvin Páll Gústavsson og Aleksandar Stojanovic samherjar hjá Kadetten Schaffhausen í Sviss.

Aðeins einn leikmaður serbneska landsliðsins, fyrir utan Ilic, leikur í þýsku úrvalsdeildinni en það er Nenad Vuckovic sem leikur með Melsungen.

Fjórir leikmenn leika í spænsku úrvalsdeildinni en þó enginn með stórliðunum Ciudad Real og Barcelona.

Sex leikmenn spila með ungverskum félagsliðum, einn í Sviss og þrír í Slóveníu. Enginn leikmaður spilar því í heimalandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×