Erlent

Geimrusl ógnar fjarskiptum

Óli Tynes skrifar
Í geimnum eru tugmilljónir aðskotahluta.
Í geimnum eru tugmilljónir aðskotahluta.

Það er orðið svo mikið af rusli í geimnum að það stefnir fjarskiptum á jörðu í verulega hættu.

Í nýrri skýrslu frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu segir að árekstur milli gervihnattar og hlunki af geimrusli gæti sent þúsundir hluta í allar áttir sem gætu grandað öðrum gervihnöttum.

Þetta gæti rofið sjónvarpssendingar, leiðsögukerfi eins og GPS, símasamband, samband við veðurgerfihnetti og fleira og fleira.

Slíkur árekstur hefur raunar þegar átt sér stað. Á síðasta ári rákust saman bandarískur fjarskiptahnöttur og gamall rússneskur njósnahnöttur yfir Síberíu.

Þeir rákust saman á 24 þúsund kílómetra hraða og splundruðust báðir. Brakið úr þeim dreifðist yfir svo stórt svæði að geimfarar um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni urðu að breyta stefnu hennar.

Síðan Rússar skutu Spútnik á loft fyrir 53 árum hafa tugir milljóna aðskotahluta bæst við á braut um jörðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×