Viðskipti innlent

Sambíóin munu leigja kvikmyndahús Egilshallar

Sambíóin / Kringlubíó og Kvikmyndahöllin ehf. hafa undirritað samning til 30 ára um leigu á húsnæði undir kvikmyndahús að Fossaleyni 1, Reykjavík (Egilshöll).

Í leigusamningnum felst að Kvikmyndahöllin ehf. lýkur við byggingu kvikmyndahússins sem staðið hefur hálfklárað frá haustinu 2008. Sambíóin hafa á móti skuldbundið sig til að hefja rekstur glæsilegs fjögurra sala kvikmyndahúss eigi síðar en í desember 2010.

Í tilkynningu segir að undirritun á leigusamningnum við Sambíóin sé fyrsta skrefið í að ljúka við þá umfangsmiklu og glæsilegu íþrótta- og afþreyingarmiðstöð sem fyrirhuguð er í Egilshöll.

Á síðasta ári gerði Reykjavíkurborg samningum aukin afnot af aðstöðu í húsinu. Í því fólst m.a. að aðsetur íþróttafélagsins Fjölnis færðist í húsið, stórbætt var aðstaða fyrir fimleika. knattspyrnu og bardagaíþróttir auk frístundaheimilis fyrir fatlaða. Með þeim samningi var stigið stórt skref í þá átt að skapa Grafarvogsbúum frábæra aðstöðu til íþróttaiðkunar og afþreyingar.

Kvikmyndahöllin ehf. er félag í eigu Regins ehf, dótturfélags Landsbankans (NBI hf,). Félagiðvar stofnað til að annast uppbyggingu og eignarhald á kvikmyndahúsinu. Auk kvikmyndahússins í Egilshöll mun Reginn ehf.eignast öll mannvirki og starfsemi sem undir Egilshöll heyrir. Reginn ehf. hyggst þó eiga Egilshöll í skamman tíma og vonir standa til að hægt verði að setjafasteignir og allan rekstur í sölu í byrjun árs 2011.

Bíóið verður með fjórum sölum sem allir verða búnir fyrsta flokks aðstöðu. Rými, sætaskipan, sjónlínur og hljóðvist verða eins og best verður á kosið. Bíósalir verða á annarri hæð hússins, á jarðhæð verður miða- og sælgætissala. Nýtt stórt og glæsilegt anddyri að Egilshöll verður sameiginlegt með annarri starfsemi hússins.

Samhliða framkvæmdum við bíóhús verður lokið við lóðaframkvæmdir umhverfis húsið sem og að fullgera bílastæði.

Sambíóin í Egilshöll verður meðal fyrstu kvikmyndahúsa í Evrópu þar sem allir salir eru búnir Digital 3D tækni og margar aðrar nýungar verða kynntar þegar þetta fullkomna kvikmyndahús verður opnað í haust.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×