Erlent

Assange sett ströng skilyrði um ferðir

Julian Assange í dómsal í London. nordicphotos/AFP
Julian Assange í dómsal í London. nordicphotos/AFP

Mikil fagnaðarlæti brutust út meðal stuðningsmanna Julians Assange, stofnanda Wikileaks, þegar dómari í London kvað upp þann úrskurð að honum skyldi sleppt gegn tryggingu.

„Ég er ekki sammála því að Assange telji sig hafa ástæðu til að mæta ekki,“ sagði Duncan Ousley, dómari áfrýjunarréttar. „Hann hefur greinilega einhvern vilja til þess að hreinsa nafn sitt.“

Ousley staðfesti þar með úrskurð undir­réttar frá því á þriðjudag.

Greiða þurfti tryggingafé að upphæð 200 þúsund pund, en sú fjárhæð samsvarar rúmlega 36 milljónum króna. Auk þess þarf Assange að bera á sér staðsetningarbúnað, gefa sig daglega fram við lögreglu og má ekki fara út að kvöld- eða næturlagi.

Hann þarf að búa á sveitasetri í austanverðu Englandi, sem er í eigu Vaughans Smith, eins stuðningsmanna Wikileaks.

Assange hefur verið í fangelsi síðan 7. desember vegna framsalskröfu frá Svíþjóð, þar sem hann er sakaður um kynferðisbrot gegn tveimur konum. Búast má við því að nokkrar vikur líði áður en breska dómskerfið tekur ákvörðun um það hvort hann verði framseldur til Svíþjóðar.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×