Skoðun

Erindi ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og VG

Margrét S. Björnsdóttir skrifar

Saga íslenskra vinstri flokka er saga sundrungar og áhrifaleysis. Með þeirri ríkisstjórn sem nú situr hafa vinstri menn sögulegt tækifæri: Verið er að framkvæma og undirbúa róttækar og tímabærar umbætur á ríkisrekstrinum með fækkun ráðuneyta og stofnana, reglum um faglegar ráðningar í opinber störf og dómaraembætti, skýr skil milli pólitískra aðstoðarmanna og embættismanna. Stíft er haldið utan um framkvæmd fjárlaga. Stefnumótun forsætisráðherra Samhent stjórnsýsla, kemur til móts við ábendingar rannsóknarnefndar Alþingis um skort á samhæfingu, vönduðum vinnubrögðum og styrkri pólitískri forystu í Stjórnarráðinu.

Þjóðinni er tryggð aðkoma að endurskoðun stjórnarskrárinnar með þjóðfundi og stjórnlagaþingi. Breytt skatta- og bótastefna dregur úr þeirri aukningu ójafnaðar sem hafði orðið. Umfang ójafnaðar hefur margvísleg áhrif á velferð borgaranna s.s. andlegt og líkamlegt heilsufar, möguleika til menntunar og afbrotatíðni.

Skörulega er staðið að rannsóknum á efnahags- og skattabrotum bóluhagkerfisins. Heimildarmenn mínir í skattkerfinu segjast loksins hafa nauðsynlegar heimildir til að rannsaka og fylgja eftir skattsvikum. Þessu verður að halda áfram, en fleira kemur til. Ég nefni það mikilvægasta: Að tryggja þjóðinni óskorað eignarhald á fiskistofnum og hlutdeild í arðinum með svonefndri tilboðsleið. Ríkisstjórnarflokkarnir eru einu flokkarnir sem það munu gera.

Verið er að láta reyna á kosti og galla þess að ganga í Evrópusambandið og VG fékk því hugsjónamáli sínu framgengt að varlegar yrði farið í nýtingu orkulinda þjóðarinnar. Hvort tveggja mikilvæg mál fyrir kjósendur flokkanna. Ég kysi auðvitað að ríkisstjórnin myndi breyta landbúnaðarkerfi sem kostar okkur hátt í 20 milljarða árlega, sé allt talið. Að ríkisstjórnin ynni betur með aðilum vinnumarkaðarins að uppbyggingu atvinnulífs. Að VG væri ekki andsnúið stóriðju. Að sumir þingmenn VG sýndu ríkisstjórninni meiri hollustu, hlypust ekki undan erfiðum ákvörðunum, eins og gerðist við afgreiðslu fjárlaga. En við lifum í ófullkomnum heimi! Í janúar mun flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar fara yfir árangur ríkisstjórnarinnar og áherslur framundan. Það færi vel á að félagsmenn VG og Samfylkingar kæmu saman einnig, ræddu hvort flokkarnir hafi ekki erindi sem erfiði, hvort ekki sé töluvert á sig leggjandi fyrir þær samfélagsumbætur sem eru í sjónmáli. Mótuðu sameiginlega framtíðarsýn?






Skoðun

Sjá meira


×