Erlent

Hætta á útbreiðslu sjúkdóma á Haítí

Búa til svefnaðstöðu Íbúar í Port-au-Prince þrífa götu til að koma sér upp svefnaðstöðu.nordicphotos/AFP
Búa til svefnaðstöðu Íbúar í Port-au-Prince þrífa götu til að koma sér upp svefnaðstöðu.nordicphotos/AFP

Jarðýtur eru notaðar til að grafa þúsundir manna á dag í fjölda­gröfum sem teknar hafa verið í skyndi í hæðunum umhverfis Port-au-Prince, höfuðborg Haítí.

Tólf daga biðlistar eru sagðir vera á lækningastöðvum, fjöldi fólks er með ómeðhöndluð sár sem tekið er að grafa í og þúsundir manna hafast við í bráðabirgðaskýlum þar sem hætta er á að smitsjúkdómar blossi upp.

„Næsta heilbrigðisváin gæti falist í því að niðurgangspestir, öndunarfærasýkingar og aðrir sjúkdómar breiðist út meðal þeirra hundruð þúsunda Haíta sem búa í yfirfullum búðum við lélega eða enga hreinlætisaðstöðu,“ segir Craig Elder, aðstoðarframkvæmdastjóri hjá samtökunum Læknar án landamæra.

Talið er að jarðskjálftinn í síðustu viku hafi kostað 200 þúsund manns lífið. Um áttatíu þúsund þeirra hafa verið grafnir í fjöldagröfum. Um tvær milljónir eru nú taldar hafa misst heimili sitt og um 250 þúsund eru í brýnni þörf fyrir aðstoð.

Meðal þeirra sem unnu við það átakanlega verk að koma fólki í fjöldagrafir í Titanyen, eyðisvæði norðan við höfuðborgina, er Foultine Fequiert. Hann er 38 ára, huldi andlit sitt með bol til að verjast stækjunni og sagðist hafa tekið á móti tíu þúsund líkum á miðvikudaginn.

„Ég hef séð svo mörg börn, svo gríðarlega mörg börn. Ég get ekki sofið á nóttunni og ef ég sef þá er ég með stöðugar martraðir,“ segir hann.

Félagar hans segjast ekki hafa neinn tíma til að veita fólki almennilega útför. Ekki sé einu sinni hægt að verða við óskum hjálparstofnana um að hafa grafirnar nægilega grunnar til þess að auðvelda fólki að hafa uppi á látnum ástvinum sínum síðar meir.

„Við bara sturtum þeim niður og fyllum yfir,“ segir Luckner Clerzier, sem var að leiðbeina ökumönnum flutningabíla að annarri gröf lengra upp með veginum.

Í gær var fimm ára dreng bjargað á lífi úr rústum heimilis síns, níu dögum eftir að jarðskjálftinn reið yfir. Líkurnar á því að fleiri finnist á lífi eru hverfandi, þótt björgunarfólk hafi ekki gefið upp vonina.

„Þetta er eins og að leita að nál í heystakki, og á hverjum degi hverfa fleiri nálar,“ sagði Steven Shin, einn þeirra björgunarmanna sem enn voru að störfum.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×