Erlent

72 milljónir lítra lekið í flóann

Bandaríkjaforseti svaraði spurningum á blaðamannafundi í gær. fréttablaðið/ap
Bandaríkjaforseti svaraði spurningum á blaðamannafundi í gær. fréttablaðið/ap

Mexíkó, ap Olíuslysið í Mexíkóflóa er það stærsta í sögu Bandaríkjanna. Samkvæmt varlegu mati vísindamanna hafa næstum 72 milljónir lítra af olíu lekið í sjóinn frá því að borpallur brann og sökk í apríl. Útreikningar vísindamanna gefa til kynna að á bilinu 1,9 og 3,8 milljónir lítra af olíu hafa lekið í sjóinn á hverjum degi frá því að slysið varð.

Barack Obama Bandaríkjaforseti svaraði spurningum fréttamanna um málið í gær. Hann hefur verið gagnrýndur fyrir aðgerðaleysi og seinagang, en sagði gagnrýnendur ekki þekkja allar hliðar málsins. Hann greindi frá því að skipuð yrði nefnd til að skoða öryggi olíuborana, og að engin ný leyfi yrðu veitt til borana næstu sex mánuðina.

Obama sagði jafnframt að þeirri ríkisstofnun sem fer með olíumál hafi yfirsést og hafi ekki verið nægilega vel undirbúin fyrir leka af þessu tagi. Yfirmaður stofnunarinnar, Elizabeth Birnbaum, hætti störfum í gær.

Olíufyrirtækið BP hefur undanfarna daga reynt að stöðva lekann og bárust fréttir af því í gær að það hefði tekist. Talsmenn fyrirtækisins vildu þó ekki staðfesta það í gærdag en sögðu tilraunir til að stöðva lekann halda áfram. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×