Handbolti

Ævintýralegur sigur Dana á Norðmönnum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Michael Knudsen skorar í kvöld.
Michael Knudsen skorar í kvöld.

Norðmenn þurfa að vinna fjögurra marka sigur á Íslandi á fimmtudag til þess að eygja von um að komast í undanúrslit á EM. Þeir þurfa þess utan að treysta á króatískan sigur gegn Dönum.

Ísland má þar af leiðandi tapa leiknum með þrem mörkum að því gefnu að Króatía vinni Dani.

Þetta varð ljóst í kvöld er liðið glutraði niður unnum leik gegn Dönum og tapaði með einu marki, 24-23.

Norðmenn leiddu með 2-3 mörkum lengst af síðari hálfleik en Danir neituðu að gefast upp.

Havard Tvedten gat komið Noregi yfir þegar hálf mínúta var eftir en Kasper Hvidt varði víti frá honum og Danir fóru í lokasóknina. Miðjumaðurinn Thomas Mogensen fiskaði þá víti er þrjár sekúndur lifðu leiks.

Anders Eggert fór á punktinn er leiktíminn var liðinn. Eggert var ískaldur og vippaði boltanum yfir Steinar Ege og í markið. Ótrúlegur kuldi. Þetta var eina skiptið sem Danmörk var yfir í leiknum.

Danir eru því jafnir Íslendingum að stigum í milliriðlinum með 6 stig en eru í þriðja sæti þar sem Ísland á innbyrðisviðureignina á Dani. Króatar eru efstir með sjö stig en Danmörk og Króatía mætast á fimmtudag.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×