Viðskipti innlent

Viðsnúningur í afstöðu viðskiptalífsins til ESB

Meirihluti forsvarsmanna fyrirtækja telur að taka þurfi upp nýjan gjaldmiðil en einnig að viðskiptalífinu sé betur borgið utan ESB.
Meirihluti forsvarsmanna fyrirtækja telur að taka þurfi upp nýjan gjaldmiðil en einnig að viðskiptalífinu sé betur borgið utan ESB.

Tæplega sextíu prósent forsvarsmanna íslenskra fyrirtækja telja hagsmunum íslensks viðskiptalífs betur borgið utan Evrópusambandsins.

Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Viðskiptaráð. En fyrir ári síðan var meirihluti forsvarsmannanna hlynntur því að sótt yrði um aðild að ESB og taldi umsókn geta bætt stöðu efnahagsmála.

Nú segir 31 prósent aðspurða að viðskiptalífinu væri betur borgið innan ESB.

Einnig var spurt um afstöðu til gjaldmiðilsins. Meirihluti forsvarsmanna fyrirtækjanna, 51 prósent, telur viðskiptalífið betur sett með annan gjaldmiðil, en 37 prósent vilja halda í krónuna.

Í tilkynningu frá Viðskiptaráði segir að niðurstöður þessara spurninga leiði í ljós að níutíu prósent þeirra, sem telja hagsmunum íslensks viðskiptalífs mikið betur borgið innan ESB, telja það einnig betur sett með annan gjaldmiðil. En 69 prósent þeirra sem telja hagsmununum mikið betur borgið utan ESB telja betra að vera með krónuna.

Viðskiptaráð telur niðurstöðurnar endurspegla óvissu sem ríki um stefnu stjórnvalda í gjaldeyris-, peninga-, og Evrópumálum. Brýnt sé að óvissunni verði eytt hið fyrsta.

Könnunin verður kynnt á komandi Viðskiptaþingi og tekur einnig til úrræða fjármálastofnana vegna rekstrarvanda fyrirækja og breytingar á skattakerfi. - kóþ






Fleiri fréttir

Sjá meira


×