Viðskipti innlent

Greining spáði nákvæmlega um verðbólgu í 11-27% tilvika

Greining Íslandsbanka hefur spáð nákvæmlega fyrir um verðbólguna á Íslandi í 11% tilvika á síðustu tíu árum. Í 27% tilvika hefur spáin verið í eða undir 0,1 prósentustigi frá hinu raunverulega vísitölugildi.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að verðbólguspár hafa verið stór þáttur í starfi greiningadeilda hér á landi sem og í löndunum umhverfis okkur. Mikið er horft til þessara spáa enda spila verðbólguvæntingar stórt hlutverk á fjármálamarkaði. Í þessu ljósi er áhugavert að horfa í gæði þessara spáa.

„Greining Íslandsbanka hefur langa reynslu í gerð þessara spáa. Þegar litið er til síðustu tíu ára þ.e. tímabilsins frá upphafi árs 2000 til loka árs í fyrra og verðbólguspár okkar fyrir það tímabil metnar kemur eftirfarandi í ljós," segir í Morgunkorninu.

„Í 11% tilfella höfum við spáð rétt fyrir um vísitöluna. Í 27% tilfella hefur spáin verið í eða undir 0,1 prósentustigi frá hinu raunverulega vísitölugildi. Aðeins einu sinni á þessum tíu árum var spáskekkjan yfir einu prósentustigi en það var í apríl 2008 þegar við spáðum 2,0% hækkun vísitölu neysluverðs á milli mánaða en raunin varð 3,4%."

Ennfremur segir að spáskekkjan er meiri þegar verðbólgan er meiri. Þannig var meðalspáskekkjan 0,25 prósentustig á þessu tíu ára tímabili en yfir síðustu tvö ár hefur spáskekkjan verið 0,35 prósentustig. Rifja má upp að verðbólgan fór í 18,6% í upphafi síðastliðins árs og að meðaltali var verðbólgan 12,4% á þessu tveggja ára tímabili.

„Spárnar ná í 92% tilfella að segja rétt til um áttina, þ.e. spá hækkun þegar það verður hækkun og lækkun þegar það verður lækkun. Einhver kann að segja að það sé nú ekki erfitt á Íslandi þar sem verðbólgan virðist óstöðvandi og vísitalan gerir nær ekkert annað er að hækka á milli mánaða. Í því sambandi má benda á að í 16% tilfella lækkaði vísitalan á milli mánaða á þessu tíu ára tímabili enda er það nokkuð algengt í útsölumánuðum," segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×