Erlent

Tilræðismaður páfa vill verða ríkur

Óli Tynes skrifar
Jóhannes Páll fyrirgaf Agca og heimsótti hann í fangelsið.
Jóhannes Páll fyrirgaf Agca og heimsótti hann í fangelsið.

Tyrkinn sem særði Jóhannes Pál páfa byssuskotum árið 1981 segist nú munu skýra frá því hversvegna hann reyndi að myrða hann.

Mehmet Ali Agca var látinn laus úr fangelsi í gær. Hann ætlar þó ekki að leysa frá skjóðunni fyrir en hann hefur fengið greiddar einhverjar milljónir sterlingspunda fyrir viðtöl, bækur og kvikmyndir.

Aldrei hefur verið upplýst af hverju Agca reyndi að myrða Jóhannes Pál. Vangaveltur hafa verið um að hann hafi verið útsendari sovésku leyniþjónustunni sem óttaðist áhrif hins pólska páfa sem var ákafur andkommúnisti.

Árið 1981 var Agca tuttugu og fjögurra ára gamall glæpamaður sem var á flótta undan tyrkneskum yfirvöldum.

Hann sat í fangelsi á Ítalíu í nítján ár. Árið 2000 var hann náðaður og framseldur til Tyrklands. Þar var hann aftur dæmdur í fangelsi meðal annars fyrir morð á blaðamanni.

Spurningar hafa vaknað um geðheilsu Tyrkjans. Þeim spurningum fækkar sjálfsagt ekki eftir yfirlýsingu frá honum sem lögmenn hans komu á framfæri í gær þegar hann var látinn laus.

Í henni segir; „Ég lýsi yfir endalokum heimsins. Öllum heiminum verður eytt á þessari öld. Allt mannkynið mun deyja á þessari öld. Ég er hinn eilífi Kristur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×