Erlent

Bretar skera börn og atvinnulausa

Óli Tynes skrifar
George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands.
George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands.

Breska ríkisstjórnin ætlar að setja þak á atvinnuleysisbætur og fella niður barnabætur til hálaunafólks. Þetta er liður í uppstokkun á velferðarkerfinu.

George Osborne fjármálaráðherra landsins segir að kostnaður við kerfið sé orðinn stjórnlaus, fólk sé jafnvel verðlaunað fyrir að vinna ekki.

Þakið á atvinnuleysisbótum miðast við að fjölskyldur þar sem báðir foreldrar eru atvinnulausir fái ekki meira greitt en fjölskyldur þar sem báðir foreldrarnir eru í vinnu.

Barnabætur eru nú greiddar með öllum börnum til 19 ára aldurs ef þau sækja skóla.

Þær breytingar sem nú verða eru að bætur verða með öllu felldar niður til fjölskyldna sem hafa meira en 44 þúsund pund á ári í tekjur. Það gerir tæpar átta milljónir íslenskra króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×