Innlent

Innflytjendum fækkar á milli ára

mannlíf á laugavegi Fjölgað hefur í annarri kynslóð innflytjenda hér á landi síðan í fyrra. fréttablaðið/stefán
mannlíf á laugavegi Fjölgað hefur í annarri kynslóð innflytjenda hér á landi síðan í fyrra. fréttablaðið/stefán
Innflytjendum hér á landi hefur fækkað síðan í fyrra. Hinn 1. janúar 2010 voru innflytjendur af erlendum uppruna 8,2 prósent mannfjöldans, eða um 26 þúsund manns. Árið 2009 voru tæplega 29 þúsund innflytjendur á Íslandi, eða um 9 prósent íbúa. Er þetta samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar.

Nokkuð hefur fjölgað í annarri kynslóð innflytjenda á milli ára, en samanlagt var fyrsta og önnur kynslóð um 8,9 prósent af mannfjöldanum í byrjun þessa árs, en var 9,6 prósent árið 2009.

Pólverjar eru fjölmennasti hópur innflytjenda hér á landi líkt og undanfarin ár, en hlutfall þeirra er um 40 prósent. Næstfjölmennasti hópurinn er Litháar, eða um 5,5 prósent og þar á eftir fólk frá Filippseyjum, sem eru um 5 prósent af heildarfjölda innflytjenda.

Kynjahlutfall hefur verið mismunandi á síðustu árum. Árið 1996 voru erlendar konur í miklum meirihluta innflytjenda hér á landi, en frá og með árinu 2006 snerist kynjahlutfallið við og var meirihluti þá karlar. Í ár eru hlutföll kynja nánast jöfn, eða um 1.012 karlar á hverjar 1.000 konur. Hlutfall íbúa landsins með engan erlendan bakgrunn er nánast það sama, eða 1.013 karlar á hverjar 1.000 konur. - sv



Fleiri fréttir

Sjá meira


×