Viðskipti innlent

Skuldir Samsonar og Björgólfs eldri einnig gerðar upp

Björgólfur Thor mun einnig gera upp 11 milljarða króna skuld vegna viðskipta föður hans og gera upp skuldir Samsonar eignarhaldsfélags, en þeir feðgar áttu það félag sameiginlega.
Björgólfur Thor mun einnig gera upp 11 milljarða króna skuld vegna viðskipta föður hans og gera upp skuldir Samsonar eignarhaldsfélags, en þeir feðgar áttu það félag sameiginlega.

Skuld Björgólfsfeðga við Arion banka upp á sex milljarða króna er hluti af heildarskuldauppgjöri Björgólfs Thors og Novators. Í fyrra greindi Fréttablaðið frá því að feðgarnir höfðu gert bankanum tilboð um að greiða fjörutíu til fimmtíu prósent af tæplega sex milljarða skuld þeirra við bankann og var það umdeilt.

Skuldir Björgólfs Thors og Novators nema samtals 1.200 milljörðum króna. Skuldir vegna Actavis vega þar langmest. Persónulegar eigur Björgólfs Thors eru hluti af uppgjörinu, þar á meðal húseign í Reykjavík og sumarhús við Þingvelli.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er skuld Björgólfsfeðga við Arion banka upp á 6 milljarða króna hluti af uppgjörinu og verður hún greidd að fullu. Björgólfur Thor mun einnig gera upp 11 milljarða króna skuld vegna viðskipta föður hans og gera upp skuldir Samsonar eignarhaldsfélags, en þeir feðgar áttu það félag sameiginlega. Margir bankar taka þátt í samkomulaginu en meðal þeirra eru Deutche Bank, Barclays, skilanefnd Glitnis og Landsbankans, Straumur og Arion banki.

Samkvæmt samkomulaginu munu skuldir verða gerðar upp að fullu og ekki gefnar eftir. Allar eignir Björgólfs Thors og Novators liggja þar til grundvallar, en þekkt alþjóðlegt ráðgjafarfyrirtæki hefur gert ítarlegt mat á verðmæti þeirra. Björgólfur Thor verður áfram hluthafi í Actavis, pólska fjarskiptafyrirtækinu Play, CCP og Verne Holding. Allur arður af þessum eignarhlutum og verðmæti, komi til sölu, munu ganga til uppgjörs skulda Björgólfs Thors.

Gert er ráð fyrir að skuldauppgjörið taki fjögur til sex ár. Ekki fékkst viðtal við Björgólf Thor í morgun en haft er eftir honum í tilkynningu að hann hafi alltaf stefnt að því að ljúka uppgjöri við lánardrottna sína með sóma. Björgólfur Thor segir að eftir hrunið hafi hann um tíma staðið frammi fyrir persónulegu gjaldþroti og bankarnir hefðu getað knúið það fram. Samkomulagið þýði að hægt verði að byggja upp og selja eignirnar á eðlilegu verði þegar fram líði stundir og þannig fáist meira upp í skuldir.

Björgólfur Thor segist fullviss um að hann hafi engin lög brotið í viðskiptum sínum á undanförnum árum. Hann hafi beðið Íslendinga afsökunar á augljósum mistökum í aðdraganda bankahrunsins og vilji ítreka þá afsökunarbeiðni. Björgólfur segist enn búa að traustu viðskiptasambandi við öfluga erlenda banka og ætli sér að byggja upp á nýjan leik.






Tengdar fréttir

Segir engar skuldir verða afskrifaðar

Björgólfur Thor Björgólfsson athafnamaður hefur gengið frá samkomulagi við lánardrottna sína um heildaruppgjör skulda. Fram kemur í tilkynningu frá Björgólfi að engar skuldir verði afskrifaðar.

Ég bið ykkur afsökunar

Ég undirritaður, Björgólfur Thor Björgólfsson, bið alla Íslendinga afsökunar á mínum þætti í eigna- og skuldabólunni sem leiddi til hruns íslenska bankakerfisins. Ég bið ykkur afsökunar á andvaraleysi gagnvart þeim hættumerkjum sem hrönnuðust upp. Ég biðst afsökunar á að hafa ekki auðnast að fylgja hugboði mínu þegar ég þó kom auga á hættuna. Ég bið ykkur afsökunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×