Erlent

Ebay-hrappur krafinn um eins punds endurgreiðslu

Philip Shortman.
Philip Shortman.

Breskri Ebay hrappurinn Philip Shortman var dæmdur til þess að greiða eitt pund til baka af þeim hundrað þúsund pundum sem hann hefur haft af fólki með svikum og prettum á uppboðssíðunni Ebay.

Shortman, sem er 22 ára gamall, stundaði svik á uppboðsíðunni í fimm ár og hafði um 100 þúsund pund upp úr krafsinu. Shortman, sem er frá Suður-Wales í Englandi, eyddi öllum peningnum jafnóðum, meðal annars í flatskjái og utanlandsferð til New York þar sem hann gisti á hóteli með útsýni yfir Times torg.

Hann var dæmdur í 30 mánaða fangelsi en í staðinn fyrir að dæma hann til þess að greiða hundrað þúsund pund til baka var eingöngu dæmdur til þess að greiða eitt pund. Greiði hann það ekki bætast sjö dagar við refsivistina.

Að sögn saksóknara sem sótti málið gegn Shortman var ekki farið fram á endurkröfu á öllum peningnum einfaldlega vegna þess að hann á engan pening lengur. Aftur á móti er hægt að krefjast endurgreiðslu efnist Shortman einhvertímann í framtíðinni.

Sem saksóknari telur ólíklegt úr þessu, og bætti við: Hann yrði þá að vinna í lottói.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×