Erlent

Smástirni nálgast jörðu óðfluga

Óli Tynes skrifar
Hringur er þarna dreginn um 2010 ST3. Það er um 150 metrar í þvermál.
Hringur er þarna dreginn um 2010 ST3. Það er um 150 metrar í þvermál.

Stjörnufræðingar hafa fundið smástirni sem gæti verið hættulegt jörðinni. Það fannst innan við mánuði áður en það fer hér framhjá. Því hefur verið gefið nafnið 2010 ST3.

Smástirnið er 150 metrar í ummál og gæti valdið gríðarlegri eyðileggingu ef það lenti á jörðinni.

Það fannst með nýjum stjörnusjónauka (Pan-STARRS) sem var sérhannaður til þess að finna smástirni sem gætu verið jörðinni hættuleg.

Fer framhjá að þessu sinni

Robert Jedicke stjörnufræðingur við Hawaii háskólann er meðal vísindamanna sem vinna að því að skilgreina upplýsingar frá nýja sjónaukanum.

Hann segir ljóst að 2010 ST3 muni ekki lenda á jörðinni í þessari umferð heldur fara framhjá henni í rúmlega sex milljón kílómetra fjarlægð. Það verður um miðjan næsta mánuð. Fundur hennar sýni hinsvegar að Pan-STARRS sé næmasti tækjabúnaður sem til sé til þess að finna smástirni. Enginn annar sjónauki hafi séð hana.

Kortleggja hætturnar

Flest stærstu smástirnin sem gætu hugsanlega ógnað jörðinni hafa þegar verið kortlögð. Vísindamenn grunar hinsvegar að þúsundir fleiri séu á sveimi sem ekki hafi enn verið uppgötvuð. Þau á Pan-STARRS að finna og kortleggja. Áætlað er að eitt slíkt lendi á jörðinni á nokkur þúsund ára fresti.

Geta breytt stefnunni framhjá jörðu

Pan-Starrs á að kortleggja alla stærri hluti sem gætu komið nálægt jörðu næstu fimmtíu árin. Þeir verða skilgreindir sem hugsanlega hættulegir og vel fylgst með þeim.

Sérfræðingar hjá Bandarísku geimferðastofnuninni telja að ef þeir fengju nokkurra ára fyrirvara gætu þeir flogið til móts við smástirni sem stefnir á jörðina og breytt stefnu þess.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×