Erlent

Stíflan gæti brostið á hverri stundu

MYND/AP

Sérfræðingar á vegum Evrópusambandsins keppast nú við að koma í veg fyrir annað eðjuflóð í Ungverjalandi. Sjö hafa þegar látist í Ungverjalandi eftir að úrgangslón við álverksmiðju í landinu brast og rauð eitureðjan flæddi um nærliggjandi sveitir.

Nær óhjákvæmilegt er talið að stífla við úrgangslónið eigi einnig eftir að bresta og keppast sérfræðingarnir nú við að minnka skaðann sem það mun valda. Mikið magn af grjóti hefur verið flutt til og raðað fyrir framan strífluna til þess að brjóta ölduna þegar stíflan brestur.

Grjótgarðurinn sem hlaðinn hefur verið fyrir framan stífluna er 600 metrar á lengd og um 30 metra þykkur og bætist í hann daglega, en sérfræðingarnir telja að stíflan geti brostið á hverri stundu. Þá keppast sérfræðingarnir einnig við að efnagreina eðjuna en óljóst er hvaða hætta stafar af henni en hún þekur nú um 14 ferkílómetra lands í nágrenninu.

Nokkrir bæir og þorp urðu fyrir flóðinu og nú reyna menn að meta hvort grunnvatn og jarðvegur á svæðinu sé mengaður. Fréttir eru þó þegar farnar að berast af því að allt líf í ánni Marcal, sem rennur í Dóna, hafi þurkast út.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×