Viðskipti innlent

Skortstaða bankanna gegn krónunni nam 1.000 milljörðum

Ein af niðurstöðunum í skýrslu Bjarna Kristjánssonar, sem starfaði sem gjaldeyrissérfræðingur hjá Landsbankanum, er að skortstaða íslensku bankanna gegn krónunni rétt fyrir hrunið 2008 hafi numið vel yfir 1.000 milljörðum kr.

Viðskiptablaðið fjallar um málið á vefsíðu sinni en þar segir að skortstaða bankanna gegn krónunni var stærsta einstaka einhliða flæðið sem fór í gegnum gjaldeyrismarkaðinn síðustu þrjú ár fyrir hrun. Þannig var skortstaða bankanna kominn í tæpa 900 milljarða í september 2008 og nokkrum dögum seinna eða þann 6. október var þessi staða komin vel yfir 1.000 milljarða eða sem nam rúmlega 80% af landsframleiðslu, sem er gríðalega mikið miðað við stærð landsins segir Bjarni.

Í samantekt úr skýrslunni, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum en Kastljós greindi fyrst opinberlega frá í gærkvöldi, kemur fram að fjárhæðirnar voru orðnar svo háar að það var ekki hægt að ætlast til þess að það væri til staðar seljanleiki til þess að koma þessum peningum úr landi sama hvað vextir í á Íslandi yrðu hækkaðir.

,,Ástæðan er sú að ef þessar fjárfestingar verða of miklar sem hlutfall af landsframleiðslu þá hreinlega hætta fjárfestar að kaupa jöklabréf af áhættusjónarmiðum. M.ö.o þegar þetta hlutfall er orðið of hátt er hægara sagt en gert að koma þessu flæði til baka úr landinu. Síðustu ár var Jöklabréfaútgáfan um 27% af landsframleiðslu sem er svipað og staðan var hjá öðrum þjóðum sem bjuggu við hávaxtamyntir," segir í skýrslunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×