Erlent

Nýtt leðjuflóð óhjákvæmilegt

Rauða leðjan verður til þegar báxít er unnið svo úr verði súrál, hráefni sem notað er í álverksmiðjum. nordicphotos/AFP
Rauða leðjan verður til þegar báxít er unnið svo úr verði súrál, hráefni sem notað er í álverksmiðjum. nordicphotos/AFP
Óhjákvæmilegt er að stífla úrgangslóns við súrálverksmiðju í Ungverjalandi bresti með nýju flóði rauðrar eiturleðju, að því er haft er eftir Zoltan Illes, umhverfisráðherra Ungverjalands.

Hann segir hagstæð veðurskilyrði valda því að sprungurnar, sem nýlega uppgötvuðust á norður­vegg lónsins, hafi hætt að víkka út, en þegar veðurskilyrði breytist muni þær víkka að nýju.

Verið er að gera við sprungurnar og reisa nýja varnarveggi utan um lónið en óvíst er hvort sú vinna gangi nægilega hratt. Bresti stífluveggurinn má búast við nýju flóði rauðrar leðju sem berast myndi yfir nærliggjandi svæði allt að kílómetra til norðurs.

Nær allir íbúar bæjarins Kolontar, 800 talsins, yfirgáfu heimili sín um helgina vegna þessarar hættu. Íbúar bæjarins Devecser, sem er örlitlu norðar, voru beðnir um að pakka nauðsynjum niður í tösku og vera búnir undir að hverfa á braut með örskömmum fyrirvara.- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×