Erlent

Þjóðir heims bregðist hratt við

Neyðarbirgðum var dreift meðal íbúa í Muzaffargarh í Mið-Pakistan í gær.Fréttablaðið/AP
Neyðarbirgðum var dreift meðal íbúa í Muzaffargarh í Mið-Pakistan í gær.Fréttablaðið/AP
Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segist aldrei hafa orðið vitni að neinu í líkingu við hörmungarnar í kjölfar flóðanna í Pakistan. Hann segir að þjóðir heims verði að bregðast hratt við og veita Pakistönum alla þá aðstoð sem hugsast geti.

„Þetta hefur verið afar erfiður dagur fyrir mig,“ sagði Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri SÞ, við fréttamenn í Pakistan í gær eftir að hafa flogið yfir flóðasvæðin. „Ég mun aldrei gleyma þeirri eyðileggingu og þeim hörmungum sem ég varð vitni að í dag. Ég hef í gegnum tíðina séð afleiðingar margra náttúruhamfara um allan heim, en ekkert í líkingu við þetta.“

Ban heimsótti meðal annars Búrma eftir að fellibylur lagði landið í rúst í maí 2008, og fór til Sichuan-héraðs í Kína nokkrum dögum eftir jarðskjálftann í mars 2008.

Ban hvatti í gær alþjóðasamfélagið til að flýta neyðaraðstoð eins og kostur er. Talið er að um 20 milljónir hafi misst heimili sín í flóðunum, en um 170 milljónir búa í Pakistan. Flóðin byrjuðu fyrir um tveimur vikum og hafa náð til um fjórðungs landsins, aðallega í landbúnaðarhéröðum í miðju landsins. - bj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×