Handbolti

Umfjöllun: Karabatic keyrði strákana okkar í kaf

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Frakkar fagna sigri með Nicola Karabatic í fararbroddi.
Frakkar fagna sigri með Nicola Karabatic í fararbroddi. Mynd/DIENER
Ísland spilar um bronsverðlaun á Evrópumeistaramótinu í handbolta í Austurríki. Það varð ljóst eftir að liðið tapaði fyrir heims- og Ólympíumeisturum Frakka í undanúrslitum í dag, 36-28.

Nikola Karabatic hefur oft verið sagður besti leikmaður heims og hann sýndi svo sannarlega í dag hvers hann er megnugur.

Hann skoraði níu mörk úr níu skotum, fiskaði þrjú víti og spilaði þar að auki gríðarlega vel fyrir félaga sína allan leikinn.

Ísland spilaði þó langt í frá jafn vel og áður í þessari keppni. Strákarnir gerðu sig seka um allt of mörg mistök í sóknarleiknum. Það gerði það að verkum að Frakkar komust ítrekað í hraðaupphlaup og skoruðu þeir tólf slík mörk í dag - Ísland aðeins fimm.

Frakkarnir sýndu í raun allar sínar bestu hliðar í dag. Það kom helst í ljós í gríðarlega sterkum varnarleik og afar vel framkvæmdum hraðaupphlaupum. Strákarnir okkar voru að sama skapi ekki upp á sitt besta í dag og því var ekki að spyrja að leikslokum.

Franska vörnin lokaði stórum köflum á línuspil íslenska liðsins. Það var þegar Ísland var að reyna að finna leið í gegnum frönsku vörnina sem boltinn tapaðist allt of oft.

Leikurinn byrjaði þó alls ekki illa og Ísland komst yfir á upphafsmínútum leiksins. Liðin voru jöfn fyrsta stundarfjórðunginn en Frakkar sýndu þá hvað koma skyldi.

Ísland fór illa að ráði sínu í tveimur sóknum í röð og á örfáum sekúndum var munurinn kominn upp í þrjú mörk, 9-6.

En það sem var afar jákvætt við íslenska liðið var að það hélt haus á þessum kafla og leyfði ekki Frökkunum að keyra einfaldlega yfir sig.

Aron Pálmarsson kom sterkur inn í íslensku sóknina og áttu Frakkarnir ekkert svar við hans frammistöðu. Hann skoraði sex af síðustu átta mörkum Íslands í fyrri hálfleik en því miður áttu þau ekki eftir að verða fleiri.

Ísland hefði átt að vera með forystuna eftir fyrri hálfleikinn en Frakkar geta þakkað einum manni fyrir að svo fór ekki - Nikola Karabatic. Hann skoraði síðustu fjögur mörk Frakka í hálfleiknum og sá til þess að þeir voru með frumkvæðið þegar síðari hálfleikur hófst.

Róbert Gunnarsson skoraði fyrsta mark síðari hálfleiks úr sínu fyrsta skoti í leiknum. Loksins tókst sóknarmönnum Íslands að finna hann inn á línunni og var það afar góðs viti.

En á næstu tíu mínútum hrundi leikur íslenska liðsins. Liðið tapaði ótal boltum, gerði hvert sóknarbrotið á fætur öðrum og tók mörg erfið skot sem flest borguðu sig ekki.

Frakkar nýttu sér þetta til fulls og skoruðu tíu af fyrstu fjórtán mörkum síðari hálfleiksins. Þeir náðu að auka muninn í átta mörk á aðeins tíu mínútum.

Þar með var leiknum í raun lokið. Strákarnir náðu að bíta aðeins frá sér og áttu möguleika að minnka muninn í fjögur mörk þegar fjórtán mínútur voru eftir en það tókst ekki. Frakkar skoruðu næstu þrjú mörk í leiknum og náðu þar með átta marka forskoti á nýjan leik. Þetta virtist einfaldlega leika í höndunum þeirra.

Mesti munurinn lá í því að besti maður Frakka, Nikola Karabatic, átti frábæran leik. Besti maður Íslands, Ólafur Stefánsson, náði sér hins vegar illa á strik gegn sterkum varnarleik Frakkanna. Hann reyndi tíu skot en skoraði aðeins tvö mörk auk þess sem hann, eins og reyndar fleiri leikmenn íslenska liðsins, tapaði boltanum of oft í sókninni.

Besti leikmaður Íslands í síðari hálfleik var Arnór Atlason. Hann skoraði fjögur mörk eftir hlé og dró vagninn þegar mótlætið var sem mest. En það dugði bara ekki til.

Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari kaus að byrja ekki með Aron Pálmarsson inn á vellinum í síðari hálfleik sem verður að teljast einkennileg ákvörðun miðað við frammistöðu hans í lok fyrri hálfleiks. Hann er að vísu ungur að árum en það var ekkert sem kallaði á að taka hann af velli. Hann var heitur en kólnaði á bekknum á meðan að leikur íslenska liðsins hrundi.

Sem fyrr segir átti Nikola Karabatic ótrúlegan leik í dag og erfitt að stoppa hann þegar sá gállinn er á honum. Engu að síður saknaði maður þess að sjá íslensku varnarmennina taka ekki jafn fast á honum og þeir hafa gert gagnvart mörgum öðrum skyttum á þessu móti.

Ísland - Frakkland 28-36 (16-18)

Mörk Íslands (skot): Aron Pálmarsson 6 (9), Snorri Steinn Guðjónsson 5/2 (5/2), Guðjón Valur Sigurðsson 5 (9), Arnór Atlason 5 (10), Alexander Petersson 3 (5), Ólafur Stefánsson 2 (10), Róbert Gunnarsson 1 (1), Vignir Svavarsson 1 (2).

Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 16/1 (51/6, 31%), Hreiðar Guðmundsson 0 (1/1).

Hraðaupphlaup: 5 (Guðjón Valur 3, Snorri Steinn 1, Alexander 1).

Fiskuð víti: 3 (Vignir 1, Arnór 1, Guðjón Valur 1).

Utan vallar: 6 mínútur.

Mörk Frakklands (skot): Nikola Karabatic 9 (9), Guillaume Joli 6/6 (7/7), Michael Guigou 6 (10), Guillaume Gille 4 (5), Cedric Sorhaindo 3 (3), Luc Abalo 3 (5), Franck Junillon 2 (2), Daniel Narcisse 2 (6), Jerome Fernandez 1 (2), Sebastien Bosquet (1).

Varin skot: Thierry Omeyer 16 (44/2, 36%).

Hraðaupphlaup: 12 (Guigou 5, Abalo 3, Gille 2, Karabatic 2).

Fiskuð víti: 5 (Karabatic 3, Fernandez 1, Sorhaindo 1).

Utan vallar: 8 mínútur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×